138. löggjafarþing — 31. fundur,  25. nóv. 2009.

fækkun héraðsdómstóla.

188. mál
[19:15]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég fer nú að verða búinn með þetta. Ég vil byrja á að fagna þeim orðum, eins og ég skildi hæstv. ráðherra áðan, að það væri hugsanlegt að dómstólaráð hefði ekki það vald að ákveða hvar héraðsdómar væru. Eftir að ég hóf að kynna mér þessi mál núna hef ég töluverðar áhyggjur einmitt af valdi dómstólaráðs og hvernig það apparat hefur einhvern veginn öðlast sjálfstæðan sess í þessu kerfi hjá okkur. Miklir fjármunir fara hreinlega bara í kostnað á því apparati og full þörf á að huga að því og ég veit að það er örugglega gert.

Ég held að það sé mjög mikilvægt að því sé haldið til haga sem kom fram áðan, að það er ekki endilega markmiðið að fækka héraðsdómurum eða héraðsdómsstöðum eða hvað við köllum það, ég held að það sé mjög mikilvægt fyrir þau sjónarmið sem eru varðandi möguleika fólks á að sækja þjónustu og nýta sér hana, það vegur býsna þungt. Ég er hins vegar ekki alveg á sömu línu og hæstv. ráðherra með það að ef af þessari þjónustuskerðingu yrði, sem ég tel að verði nú ekki samkvæmt orðum hennar, eigi ekki endilega að bæta það á einhvern hátt því að það kosti ríkisútgjöld með öðrum hætti. Þetta snýr að sjálfsögðu líka, eins og ég sagði, að fólkinu sem þarf að nýta sér þjónustuna og öllum þeim störfum sem í kringum hana eru.

Ég vil ítreka það að lokum, því að þetta er að verða búið hjá mér að sinni, að ég held að það sé full ástæða til að endurskoða þann mikla kostnað sem er á umsjón dómstólaráðs og slíku.