138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

tilhögun þingfundar.

[10:32]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ég vil nota þetta tækifæri og ítreka þá yfirlýsingu okkar sjálfstæðismanna að séu einhver þau mál sem ríkisstjórnin telur nauðsynlegt að koma með inn í þingið sem snúa að fyrirtækjum og heimilunum í landinu munum við að sjálfsögðu verða til viðræðu um að hliðra til, til að tryggja framgang slíkra mála. Undir þetta falla ekki þau mál sem ríkisstjórnin leggur nú fyrir þingið þar sem ríkisstjórnin sjálf er fullkomlega ósammála um þau. Dæmi um mál sem við höfum ekki hliðrað til fyrir er persónukjör til sveitarstjórnarkosninga þar sem helstu forustumenn ríkisstjórnarinnar eru á móti málinu og það hefur tafið framgang annarra mála í þinginu. Þess vegna ítreka ég þetta: Við erum tilbúin til viðræðu hvenær sem er og um leið legg ég það til við forseta að þingflokksformenn verði kallaðir saman á fund nú á eftir og við reynum að koma einhverju skikki á þinghaldið þannig að búið sé að ákveða það í kvöld hversu lengi við eigum að ræða saman um þetta mikilvæga mál í dag. Svo höldum við áfram og klárum þá umræðu með þeim hætti að bragur sé að því fyrir Alþingi Íslendinga.