138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

tilhögun þingfundar.

[10:39]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. (ÞSveinb: Aftur?)

(Forseti (RR): Forseti vill árétta vegna frammíkalls hv. þingmanns að þetta er samkvæmt þingsköpum.)

Frú forseti. Hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir kallar fram í og setur upp svip yfir því að ég skuli koma aftur í ræðustól til að ræða þessa atkvæðagreiðslu þrátt fyrir að það sé að sjálfsögðu í fullu samræmi við þingsköp. Hv. þingmaður vill, eins og félagar hennar, losna við þetta mál án þess að það sé rætt og helst, ef um það eiga að fara fram einhverjar umræður, að þær fari fram á kvöldin eða næturnar svo stjórnarliðar þurfi ekki að hlusta á þær.

Sá málflutningur sem hér hefur heyrst þess efnis að með þessu sé verið að halda frá öðrum málum, er að sjálfsögðu eins fráleitur og frekast getur orðið. Við erum búin að margítreka að við opnum hvenær sem er fyrir þeim málum sem þingið og þjóðin hafa verið að bíða eftir mánuðum saman, málum sem skipta einhverju máli fyrir íslensk heimili og íslensk fyrirtæki og er löngu orðið tímabært að (Forseti hringir.) rætt sé um í þessum þingsal.