138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

tilhögun þingfundar.

[10:43]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Ég fagna því að hér verða greidd atkvæði um hvort fara skuli inn í þennan kvöldfund vegna þess að ég hef mikinn áhuga á því að sjá hvernig stjórnarliðar greiða atkvæði. Ég geri þá ráð fyrir því að þeir sem samþykkja að halda næturfund, ef það verður ofan á, setji sig á mælendaskrá vegna þess að ég sat hérna allan þriðjudaginn og enginn stjórnarliði hafði kjark til þess að koma upp í þennan stól og skýra sannfæringu sína í þessu máli. (Gripið fram í.) Getur það verið vegna þess að það er engin sannfæring í þessu máli hjá stjórnarliðum? Það á að hlýða forsætisráðherra og fjármálaráðherra. Ég krefst þess að þeir stjórnarliðar sem telja sig hafa einhverja skoðun í þessu máli komi upp og lýsi því yfir hvers vegna þeir greiði atkvæði með því að hér sé kvöldfundur. Er það vegna þess að þeir ætla að taka þátt í umræðunni?