138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

tilhögun þingfundar.

[10:52]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Mér finnst mjög athyglisvert (Gripið fram í.) að hlusta á umræðu um hvort við eigum að vera fram á kvöld eða ekki. Mér finnst alltaf alveg sérstaklega athyglisvert að hlusta á efnahagssérfræðing Sjálfstæðisflokksins, Tryggva Þór Herbertsson, tala í ræðustól um Icesave, sama hvort ég geri það í þingsal eða í sjónvarpinu eða í tölvunni, vegna þess að það er alveg stórkostlegt að lesa fréttir frá 4. október 2008 þar sem þessi efnahagssérfræðingur Sjálfstæðisflokksins og sérstakur efnahagsráðgjafi fyrrverandi forsætisráðherra … (Gripið fram í.) — Já, gat það verið að sjálfstæðismenn færu af hjörunum þegar þetta er rifjað upp. Hér fullvissar Tryggvi Þór Herbertsson breska sparifjáreigendur um að þetta sé ekkert vandamál, (Forseti hringir.) íslenska þjóðin muni standa á bak við Icesave-reikninginn. Hann var í viðtali á þætti í Radio 4, Money Box, með framkvæmdastjóra Icesave og sagði: (Forseti hringir.) Hafið engar áhyggjur. (Gripið fram í.) Íslenska kerfið er það gott að við munum sjá um þetta. Mér finnst (Forseti hringir.) full ástæða til að þingfundur verði langur þannig að hv. þingmaður, (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) efnahagssérfræðingur Sjálfstæðisflokksins, (Gripið fram í.) geti verið sem lengst og tjáð (Forseti hringir.) skoðanir sínar hér inni. (Gripið fram í.)