138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

tilhögun þingfundar.

[11:06]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Við ræðum hér um atkvæðagreiðslu um kvöldfund í einu stærsta máli sem Alþingi Íslendinga hefur tekist á hendur. Ef við erum að tala um virðingu Alþingis og ef við viljum standa vörð um virðingu þingsins þá ræðum við ekki mál sem þetta um miðjar nætur. Og ef við erum að tala um um virðingu Alþingis þá eiga stjórnarliðar að sýna þessu máli þá virðingu að taka þátt í umræðu um þetta risastóra mál. Ef við stjórnarandstæðingar eigum að tala heilu næturnar fyrir auðum sal þar sem enginn stjórnarliði er til staðar þá er það fyrir neðan virðingu Alþingis. Það sem við erum að gera með þessari umræðu er að mótmæla því að ræða þetta mikilvæga mál um miðjar nætur, þannig stöndum við stjórnarandstæðingar, þ.e. minni hlutinn í þinginu, vörð um þingið, og kannski líka að reyna að innleiða einhverjar fjölskylduvænar leikreglur sem stjórnarmeirihlutinn hefur oftsinnis talað fyrir hér.