138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

tilhögun þingfundar.

[11:08]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Við göngum nú til atkvæða um það hvort halda eigi fund í nótt og það vill svo til að einmitt Samfylkingin og hæstv. ráðherrar hennar og hv. þingmenn hafa lagt mikla áherslu á að Alþingi verði fjölskylduvænt. Á Alþingi er fólk sem er með börn heima hjá sér og það er ekki við hæfi að kvöld eftir kvöld sé fólki haldið frá börnum sínum og fjölskyldu sinni. Það er dálítið ankannalegt að einmitt þetta sama fólk skuli núna leggja áherslu á að við ræðum um Icesave þegar ekki liggur fyrir að það þurfi að afgreiða yfirleitt og á sama tíma eru fjárlögin sem við verðum að afgreiða fyrir áramót og öll þau fylgirit sem því fylgja eru óleyst, það er órætt. Ég legg áherslu á að Alþingi verður að fara að sinna þeim málum til að þau fari í gegnum Alþingi með sæmilegum hætti. Við eigum eftir að samþykkja skattalög og margt margt fleira sem skiptir miklu máli að sé vel unnið.