138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

tilhögun þingfundar.

[11:09]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Það er mikilvægt að það verði klárað að svara þeim spurningum sem hér hafa vaknað varðandi þessa atkvæðagreiðslu en hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir spyr hvað það er sem er ósagt í málinu, hv. þingmaður hafi rætt þetta fram og aftur í sex mánuði í sumar. Það sem er ósagt í málinu er það hvernig þeir þingmenn sem komu hér upp í sumar hrósandi fjárlaganefndarfólki fyrir þá góðu niðurstöðu sem þar náðist að þeirra mati, þá fyrirvara sem Alþingi setti. Það er ósagt hvernig fólk hefur turnast frá þeirri skoðun sinni vegna þess að hér erum við að ræða frumvarp sem er gjörbreytt og kollvarpar þeim fyrirvörum sem Alþingi setti í sumar. Hvers vegna geta þingmenn ekki skilið það að málið er gjörbreytt og það er það sem er ósagt í málinu og það er það sem spurt er um?

Frú forseti. Ég vonast til þess að hv. þingmenn hafi það í huga þegar þeir koma hér og greiða atkvæði við atkvæðagreiðsluna á eftir.