138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

tilhögun þingfundar.

[11:12]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ég vil ítreka það sem ég lagði til áðan að við gerum hlé á 2. umr. um Icesave-málið, sendum það til fjárlaganefndar, tökum skattamálin, tökum fjáraukalögin, ræðum þau fram á nótt, greiðum atkvæði um að hafa kvöldfund, ræðum fjáraukalögin fram á nótt, ræðum skattamálin fram á nótt. Þetta snýst ekki um það að við viljum ekki vera hérna, þetta snýst um það að við viljum vera effektíf, svo ég sletti, í því sem við erum að gera.

Hvað varðar ummæli hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur, sem segist hafa talað hér í allt sumar og allt haust, þá er ég með upplýsingar frá skrifstofu Alþingis. Hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir talaði í 23 mínútur um Icesave-málið allt sumarþingið og það sem af er þessu þingi, þó hef ég ekki upplýsingar um 2. umr. það sem af er henni en við 1. umr. talaði þingmaðurinn í heilar 5 mínútur. Ef það er allt sem þingmaðurinn hefur að segja um þetta mikilvæga mál þá hvet ég hana til að lesa gögnin sín aftur og skoða málið betur. (ÓÞ: Ég sagði við höfum talað í ..., ég hef sagt allt sem ég þarf að segja.)