138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

tilhögun þingfundar.

[11:14]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Við erum búin að eyða 45 mínútum í að ræða um það hvort Alþingi Íslendinga fái að ráða því hvort það verður kvöldfundur eður ei og menn hafa sem sagt verið að reyna að komast hjá því að fara í atkvæðagreiðslu. Ég vil vekja athygli á því að 1. málið á dagskrá er um störf þingsins, 2. málið er ríkisábyrgðin á Icesave, þar eru um það bil 15 eða 16 á mælendaskrá og ef allir flyttu mál sitt hnitmiðað og skorinort tæki þetta svona 5–6 klukkustundir og miðað við það yrðum við búið með þessa umræðu um sexleytið, tækjum okkur kvöldmat og færum í fjáraukalögin — (Gripið fram í.) ég er alls ekki að banna neinum, ég er bara að reikna út hvað væri hægt að gera — færum í fjáraukalögin í kvöld, fengjum að ræða þau á kvöldfundinum inn í kvöldið, gætum hætt einhvern tíma um klukkan 11. Ef Icesave verður afgreitt fyrir kvöldmat getum við tekið það inn í fjárlaganefnd í fyrramálið og við getum komið þessum málum áfram. Það sem ræður því hvað það tekur langan tíma er hversu langan tíma menn nota til að tjá sig um það sem þarf að segja og það er auðvitað val þeirra sem koma í ræðustól. Það er ekki val þeirra um að kalla eftir því að aðrir taki til máls, það getur ekki verið hluti af lýðræðinu. Ég skora því á þingheim að afgreiða þetta mál á lýðræðislegan hátt, ljúka 2. umr., koma því inn í fjárlaganefnd, þannig að við getum unnið að málinu milli umræðna. (Forseti hringir.) Það á ekki að gerast í miðri 2 umr., það á að gerast þegar 2. umr. lýkur eins og venja er til. Við skulum ... (Gripið fram í.) Ég er ekkert að ákveða það, ég er að segja að þið ráðið því, þeir sem eru að tala um kvöldfund eru að gefa yfirlýsingar um að þeir ætli að tefja málið eins og þeir augljóslega hafa verið að gera.