138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

Icesave og bréf frá Gordon Brown -- orð forsætisráðherra um virkjanir.

[11:26]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Hæstv. forseti. Í gærkvöldi birtist á vefsíðunni visir.is makalaust bréf frá Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, sem svar við bréfi hæstv. forsætisráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur sem sent var fyrir 10 vikum. Þetta bréf er dagsett 13. nóvember sl. Í dag er 26. nóvember eins og hæstv. fjármálaráðherra var svo elskulegur að benda okkur á áðan. Icesave-málið er náttúrlega á dagskrá hér í þinginu, Icesave-málið er á forræði þingsins. Margoft hafa þingmenn hér spurt hæstv. forsætisráðherra hvað líði því að Gordon Brown, hæstv. forsætisráðherra Bretlands, svari og hvort gengið hafi verið eftir því að hann svari bréfi forsætisráðherra Íslands. Hæstv. forsætisráðherra sagðist vera að bíða eftir svari, ætti von á að það kæmi fljótlega. Hæstv. forsætisráðherra hefur ekki hirt um að upplýsa Alþingi Íslendinga um að það eru 12 dagar síðan bréf þetta barst. Hæstv. forsætisráðherra hirðir ekki einu sinni um að umgangast Alþingi af þeirri virðingu sem henni ber.

Þetta er ekki hægt. Þessi vinnubrögð eru fyrir neðan allar hellur. Hvernig stendur á því, og eigum við að sitja undir því, að hæstv. forsætisráðherra liggur á bréfum í marga daga án þess að ræða um það við þingið, um mál sem er á forræði þingsins? Fyrir utan það að svörin sem þessi maður, Gordon Brown, sendir okkur, Íslendingum, eru náttúrlega makalaus. Þau eru alveg makalaus. (Gripið fram í: Það er bara gott.) Hann virðir íslenska þjóð að vettugi. Hann virðir hæstv. forsætisráðherra að vettugi. (Forseti hringir.) Hann hirðir ekkert um að svara því auma bréfi, vil ég leyfa mér að segja, sem hæstv. forsætisráðherra hafði áður svarað og hann kemur fram (Forseti hringir.) við þessa þjóð af fullkominni vanvirðingu.

Frú forseti. Það kemur ekki til greina að Alþingi (Forseti hringir.) sætti sig við þessi vinnubrögð.