138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

Icesave og bréf frá Gordon Brown -- orð forsætisráðherra um virkjanir.

[11:29]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég kvaddi mér hljóðs vegna þess að hv. þm. Ólöf Nordal sagðist ætla að eiga orðastað við mig um þessi bréf en hún fór svo illa með mig (Gripið fram í.) að hún gleymdi að óska eftir því að ég kommenteraði eitthvað á þau. Ég ætlaði að þakka henni þá virðingu að fela mér að svara fyrir hönd Gordons Bowns og (Gripið fram í.) hæstv. forsætisráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur. Það sem mér finnst athyglisvert við þessi bréfaskipti og svo sem málflutninginn í sjálfu sér í heild er að á sama tíma og við höfum hlustað á að ekkert liggi á því að afgreiða Icesave, við höfum nógan tíma, jafnvel fram í febrúar, skuli menn kvarta yfir því að einhverjir dagar hafi liðið frá því að þeir fengu upplýsingar um einhver bréfaskipti. Ég ætla ekki að gera lítið úr mikilvægi þess að þau bréfaskipti verði rædd. Það sem ég les út úr þessum bréfaskiptum og ég held að sé mikilvægt að draga fram er að þau eiga að eyða þeirri fullyrðingu sem hér hefur verið viðhöfð mjög í umræðunni um Icesave-málið, að forsætisráðherra beri ekki hag þjóðarinnar fyrir brjósti í þeim samskiptum sem hún hefur átt við erlend ríki.

Það kemur skýrt fram í bréfinu að hæstv. forsætisráðherra heldur mjög til haga þeim grundvallaratriðum sem við höfum barist fyrir, þingmenn allir, að halda til haga, þ.e. í fyrsta lagi að við höfum ekki viðurkennt þá lagalegu skyldu sem Icesave-samningurinn byggir á. Við höfum ítrekað sagt að við ætlum að standa við skuldbindingar okkar en við ætlum að halda þeim rétti áfram að reyna að koma málinu fyrir dómstóla. Í öðru lagi ítrekar forsætisráðherra að Brussel-viðmiðin skipta gríðarlega miklu máli og við áskiljum okkur og krefjumst þess að erlendu ríkin setjist að borðinu með okkur og vinni með okkur áfram að málum þó að þessi samningur verði afgreiddur út úr Alþingi Íslendinga. Allt þetta kemur fram í þessu bréfi sem er svarbréf hæstv. forsætisráðherra frá 17. nóvember. Það er gríðarlega mikilvægt að þingheimur sjái hvernig þessi (Forseti hringir.) málflutningur hefur verið af hálfu forsætisráðherra og um leið getum við alveg séð hvað Bretarnir eru að segja. Við getum gefið okkur betri (Forseti hringir.) tíma til að átta okkur á um hvað þær breytingar snerust sem gerðar voru á frumvarpinu. Það kemur að sínu leyti (Forseti hringir.) fram hjá forsætisráðherra Breta hvernig hann skilur málið.