138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

Icesave og bréf frá Gordon Brown -- orð forsætisráðherra um virkjanir.

[11:45]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að gangast við því að mér er afar heitt í hamsi út af þessu máli og svo heitt var mér í hamsi áðan að ég steingleymdi að spyrja hv. þm. Guðbjart Hannesson þeirrar spurningar sem ég hafði ætlað að bera upp við hann. [Hlátur í þingsal.] En hann er bara greinilega farinn að þekkja mig svo vel og honum tókst bærilega að svara spurningunni. Hann gerði reyndar það sem mér svíður dálítið, hann gerðist sérstakur umboðsmaður Gordons Browns og tók að sér að skýra sjónarmið hans. En eins og hv. þm. Einar K. Guðfinnsson lýsti svo ágætlega hérna áðan er það væntanlega vegna þess að Gordon Brown er einn dyggasti stuðningsmaður þessar ríkisstjórnar í Icesave-málinu, (Gripið fram í.) það fer ekki á milli mála.

Alvarleikinn í þessu máli er einkum sá hvernig þingið er meðhöndlað í þessu máli. Á þetta að halda svona áfram? (Gripið fram í: Nei.) Hvar er allt þetta opna og gegnsæja og hvar er öll sú umræða sem átti að fara fram? (Gripið fram í.) Hvað með að hafa „allt uppi á borði“ eða „öll gögn uppi á borði“? Hvert fór það? Undir teppið? Hvernig stendur á því?

Hvernig stendur á því að bréf af þessum toga skuli fyrst birtast í fréttatíma þegar þingmenn eru hér í miðjum klíðum að ræða Icesave-málið? Er það kannski vegna þess að hæstv. forsætisráðherra skammaðist sín fyrir svarbréfið, getur það verið? Gordon Brown var tíu vikur að semja þetta smábréf og sýnir íslenskri þjóð fullkomna vanvirðingu. Svo tekur steininn úr þegar forsvarsmaður ríkisstjórnar, hæstv. forsætisráðherra, kýs að hunsa þingið í þessu máli. Þegar þetta mál er á forræði þingsins kýs hún að koma ekki fram með þessar upplýsingar. Þetta er bréf sem ekki gekk svo lítið á að senda af hálfu forsætisráðherra. Svo var því svarað og svarið hafi komið fyrir tólf dögum síðan.

Þetta er ekki hægt og mér finnst alveg nauðsynlegt, frú forseti, að þingið fari nú að snúa sér að því að hemja framkvæmdarvaldið hérna og háttalag þess á löggjafarsamkundunni. Þetta gengur bara ekki svona. (Gripið fram í: Nei.)