138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

Icesave og bréf frá Gordon Brown -- orð forsætisráðherra um virkjanir.

[11:48]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Það er alveg rétt sem hv. þm. Ólöf Nordal benti hér á að það var búið að kalla eftir upplýsingum af þessu tagi í þinginu. Ég gerði það sjálfur á fimmtudaginn í síðustu viku og í fyrradag kallaði ég eftir því að forsætisráðherra gerði grein fyrir því hvernig samskiptum hefði verið háttað við forsætisráðherra Breta.

Einu svörin sem bárust við því komu þegar forsætisráðherra talaði hér í eina mínútu í umræðum um fundarstjórn forseta og sagði: Ég tala þegar mér hentar, minn tími er ekki kominn. Einhvern veginn þannig tók hún til orða. (Gripið fram í.) Þarna var hún spurð skýrra spurninga um samskiptin við Gordon Brown en hæstv. forsætisráðherra sýnir þinginu þá lítilsvirðingu að ómaka sig ekki með því að koma upp í ræðustól til þess að greina frá þessu. (Gripið fram í.) Það var auðvitað búið að kalla eftir þessum upplýsingum í langan tíma, bæði í þinginu og í fjölmiðlum. Á endanum sá forsætisráðherra auðvitað að henni var ekki stætt á því að halda þessu leyndu lengur og þess vegna var þetta birt með þessum hætti.

Bæði þetta bréf og raunar bréfin frá 28. ágúst líka, sem við eigum eftir að fjalla nánar um hér í umræðunni um Icesave-frumvarpið, bera ekki vott um að hæstv. forsætisráðherra hafi fylgt málunum eftir af festu gagnvart Bretum og Hollendingum, því miður. Við getum farið yfir það í betra tómi og það er auðvitað nauðsynlegt að þessi bréf komist í þingtíðindi þannig að menn hafi á pappír að hvaða leyti hæstv. forsætisráðherra fylgdi eftir fyrirvörum Alþingis frá því í sumar. Það voru ekki höfð uppi nein smáorð um það hvernig íslensk stjórnvöld ætluðu að fylgja þessu eftir, að taka niðurstöðuna sem Alþingi komst hér að í lok ágúst og fylgja henni eftir af festu og beita sannfæringarkrafti. (Forseti hringir.) Við þurfum á öllu okkar að halda, sagði forsætisráðherra, og skrifaði svo einhver kurteisisbréf sem forsætisráðherra (Forseti hringir.) Breta sá ekki ástæðu til að svara fyrr en tíu vikum eftir að það var sent.