138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

Icesave og bréf frá Gordon Brown -- orð forsætisráðherra um virkjanir.

[11:50]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Fyrst aðeins út af svari eða ekki-svari hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar við fyrirspurn minni varðandi samkomulagið á stjórnarheimilinu. Ég lýsti því að ég hef áhyggjur af atvinnumálum suður með sjó. Ég leyfi mér að draga heiðarleika hins annars ágæta þingmanns í efa þegar hann lýsir því að það sé logn og blíða á stjórnarheimilinu. En hann er farinn úr salnum þannig að ég ætla ekki að eyða þessum stutta tíma í frekari orðaskipti við fjarstaddan mann.

Varðandi Gordon Brown og hæstv. forsætisráðherra vekur það óneitanlega upp spurningar þegar maður verður vitni að þessum vinnubrögðum varðandi þessi makalausu bréfaskipti, þessi aumkunarverðu bréfaskipti af hálfu forsætisráðherra við forsætisráðherra Bretlands. Hverju fleiru er verið að leyna okkur? Við höfum hér í gegnum alla þessa umræðu þurft að draga allar upplýsingar út úr framkvæmdarvaldinu með töngum. Þrátt fyrir ítrekaðar fyrirspurnir hv. þingmanna um þessi mál er það ekki hv. Alþingi sem fær þessi gögn. Nei, það var vegna fyrirspurnar Stöðvar 2 sem Jóhanna Sigurðardóttir, hæstv. forsætisráðherra, birti bréfaskriftir sínar við Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands. Það er þvílíkt reginhneyksli að ég átta mig ekki á því af hverju því hefur ekki verið slegið upp í öllum heiminum að forsætisráðherra Íslands skuli vanvirða íslenska löggjafarsamkundu með þessum hætti. Eins og hér hefur verið bent á hefur verið kallað eftir þessum bréfaskiptum og svörum í umræðunni. Ef hæstv. forsætisráðherra sæi bara sóma sinn í því að sitja hér, taka þátt í umræðunni, ef hennar tími er einhvern tíma kominn til þess að taka þátt í þessari umræðu, og greindi okkur frá hvað annað er að gerast. Er það fleira (Forseti hringir.) sem hæstv. forsætisráðherra leynir okkur?