138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

Icesave og bréf frá Gordon Brown -- orð forsætisráðherra um virkjanir.

[11:52]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég stillti mig af hér fyrr í umræðunni þegar hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir brigslaði mér um landráð. (Gripið fram í.) Í sjálfu sér hefði verið tilefni til að koma upp og óska eftir því að þingmaðurinn yrði víttur. Ég get illmögulega setið undir því, eftir að hafa unnið hér með þingmönnum í fleiri vikur í sumar og komist að ásættanlegri niðurstöðu, að þá sé hér upplýst af hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttur að hún hafi upplifað alla þá vinnu þannig að ég talaði máli Gordons Browns.

Ég ætla að biðja hv. þingmann að biðja mig afsökunar á þessu. Ég hef aldrei talað máli Breta eða Hollendinga í þessu máli og mun aldrei gera það. Aftur á móti getur okkur greint á um hvað er gott fyrir Ísland, okkur getur greint á um hversu skynsamlegt er að gera ákveðna hluti. Það felur ekki í sér að maður tali máli annarra landa.

Hv. þm. Ólöf Nordal, sem gleymdi að spyrja mig spurningar en ég fór í andsvar við engu að síður, tekur svo undir með hv. þingmanni með því að kalla mig umboðsmann Gordons Browns. Ég fór hér upp til þess að ræða hvað forsætisráðherra landsins hefði sagt og hvernig hún hefði flutt málið (Gripið fram í.) og hafði gert það áður. Mér finnst skipta miklu máli að fólk vari sig í þessari umræðu og sé ekki brigsla hver öðrum um óheilindi. Það hef ég ekki gert við ykkur, ágætu hv. þingmenn, og mun ekki gera það. (Gripið fram í: Þú sagðir það.) Hv. þingmaður sagði (Gripið fram í.) að ég væri umboðsmaður Gordons Browns, að ég talaði þannig. Það var það sem (Gripið fram í.) ég heyrði hér fyrir augnabliki síðan. Ég ætla ekki að sitja undir þessu. Það þýðir ekki að ég ætli að gangast undir allar þær fáránlegu hugmyndir sem komið hafa fram um lausn málsins.

Ég hef setið hér í heilan dag og hlustað á ræður um Icesave. Hvaða tillögur hafa komið frá Sjálfstæðisflokknum um hvernig leysa eigi málið? (Gripið fram í: Fresta málinu.) (Gripið fram í: Engin.) Fresta málinu, dæmigerð lausn, nákvæmlega sú laun sem við teljum að sé óheillavænleg fyrir Íslendinga, að ljúka ekki málinu. (BirgJ: … að senda þingmenn út …) (Gripið fram í.)

(Forseti (SVÓ): Forseti áminnir hv. þingmenn um að sýna stillingu við þessar umræður.)