138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

skattlagning á ferðaþjónustuna.

[12:04]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Eins og þingheimur og þjóðin vita stöndum við frammi fyrir því gríðarlega erfiða og þungbæra verkefni að þurfa að loka hér gríðarstóru fjárlagagati. Þessi ríkisstjórn hefur ákveðið að fara þær leiðir að fara út í almennar skattlagningar, ekki sértækar. Því er ekki um það að ræða að hér sé verið að skattleggja einhverjar einstakar atvinnugreinar sérstaklega, eins og mér fannst liggja í orðum hv. þingmanns, svo er ekki um að ræða hér. Farin var sú leið að meta áhrif skattabreytinga á atvinnugreinarnar þannig að engin þeirra yrði fyrir verulegu höggi, en það er auðvitað ekkert leyndarmál að allt atvinnulíf í landinu mun finna fyrir skattahækkunum eins og almenningur.

Það liggur fyrir að þessi mál verða rædd hér í þinginu, þ.e. skattbreytingarnar almennt, í heild sinni og án efa munu viðeigandi þingnefndir kafa ofan í málið og fara í greiningu á því hvaða áhrif þetta hefur á atvinnugreinar. Því finnst mér svolítið erfitt að taka sérstaklega út eina atvinnugrein með þeim hætti sem hér er gert.

Ég vil líka minna á að talsmenn ferðaþjónustunnar, sem og Samtök atvinnulífsins, lögðu líka til verulega hækkun á tryggingagjaldi í þeirri vinnu sem verið hefur við þessar skattbreytingar. Ríkisvaldið var ekki til í að fara þá leið af jafnmiklum þunga og Samtök atvinnulífsins lögðu til einfaldlega vegna þess að mannaflsfrekar greinar eins og sprotageirinn, eins og ferðaþjónustan, yrðu þar fyrir miklu höggi.

Núna í lok september skipaði fjármálaráðherra nefnd sem ætlað er að kanna grundvöll þess að leggja á umhverfisgjöld sem tengd yrðu ferðaþjónustu og rynnu til uppbyggingar þjóðgarða og annarra fjölsóttra og friðlýstra áningarstaða ferðamanna. Það var gert til þess að eiga samráð við ferðaþjónustuna sem hefur kallað eftir því að það komi aukið fjármagn til markaðssóknar, í áætlanagerð, í uppbyggingu ferðamannastaða til þess að taka á móti öllum þeim fjölda ferðamanna sem hingað kemur. Þessi mál hafa verið rædd lengi og var nokkur sátt um það þegar málið var rætt hér á þingi í sumar að fara þess konar leið, þ.e. að fara út í gjaldtöku innan ferðaþjónustunnar. Þessari nefnd er ætlað að finna leiðir til þess að finna fjármagn sem síðar rynni í áðurnefnda uppbyggingu innan ferðaþjónustunnar. Þessi nefnd er enn að störfum og í henni sitja m.a. Ólafur Örn Haraldsson, sem er formaður, og síðan fulltrúar iðnaðarráðherra, umhverfisráðherra, Samtaka ferðaþjónustunnar og samtaka á sviði náttúruverndar.

Það hefur orðið alveg gríðarleg og ánægjuleg aukning í ferðamannastraumi hingað til lands. Það er alveg ljóst að ferðamönnum fjölgar hér umfram það sem gerist í nágrannalöndunum og það sem gerist að meðaltali annars staðar. Það hefur verið jöfn aukning þannig að það er ekki bara gengið sem veldur þessu, aukningin hefur verið jöfn og þétt frá árinu 2000 þegar ferðamenn voru hér 278 þúsund en á síðasta ári voru þeir 502 þúsund. Það er fyrir utan skemmtiferðaskipin sem hingað komu með tæplega 70 þúsund manns. Ferðamönnum hefur því fjölgað hér í allt öðrum takti en í nágrannalöndum okkar. Þess vegna eru tölur í ferðaþjónustunni fyrir Ísland öðruvísi en í öllum nágrannalöndum okkar þar sem hefur verið samdráttur í komu ferðamanna.

Ríkisvaldið hefur gripið til þess að auka markaðsfé. Það er einn liður á fjáraukalögum núna, auk þess sem heimild er fyrir frá þinginu að ráðast í sérstakt markaðsátak nú í haust. Verið er að verja stoðkerfi ferðaþjónustunnar þannig að við getum farið í öfluga markaðssókn.

Fjölgun ferðamanna fylgir líka gríðarleg ábyrgð vegna þess að náttúran er jú aðdráttaraflið sem kallar á þessa ferðamenn hingað til lands. Við erum að blása til sóknar innan ferðaþjónustunnar með því í fyrsta lagi að fara í áætlanagerð um dreifingu ferðamanna um landið, um uppbyggingu ferðamannastaða svo stýra megi umgengni um staðina til þess að verja náttúruna, náttúruperlurnar og eins erum við að ráðast í öfluga vöruþróun á sviði ferðaþjónustunnar í samstarfi við Samtök ferðaþjónustunnar, t.d. á sviði heilsutengdrar ferðaþjónustu. Markmiðið er að dreifa ferðamönnum yfir árið þannig að ferðaiðnaður verði heilsársatvinnugrein hjá fleiri Íslendingum en er í dag.

Það hefur því svo sannarlega hefur verið blásið til sóknar í ferðaþjónustu af hálfu þessarar ríkisstjórnar. Við erum að hugsa um eitt og einungis eitt fyrir ferðaþjónustuna, það er (Forseti hringir.) uppbygging og aftur uppbygging.