138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

skattlagning á ferðaþjónustuna.

[12:09]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Líkt og Ísland er Holland mikið ferðamannaland. Í júní árið 2008 ákváðu hollensk yfirvöld að taka upp komugjöld á farþega til Hollands vegna vandamála sem þau áttu við að stríða í ríkisfjármálum. Hollendingar áætluðu að af þessu athæfi kæmu u.þ.b. 300 milljóna evra tekjur. Í júlí sl. höfðu tekjur af ferðamönnum dregist saman um 1,3 milljóna evra. Um 20% af því var rakið til komugjaldanna og Hollendingar afnámu þau. Forsvarsmenn flugfélaganna hafa tjáð hv. efnahags- og skattanefnd að 1% hækkun á farmiðum muni leiða til 1% fækkunar á ferðamönnum. Mér er fullljóst að við mikið vandamál er að etja hvað varðar ríkisfjármálin og það er mikilvægt að úthugsa hvernig eigi að loka því gati. Sennilega munu nokkrir af þeim sköttum sem á að taka upp ógna gullgæsinni.

Þá ber sérstaklega að nefna kolefnisskatta, sem munu verða til þess að þotueldsneyti og eldsneyti fyrir langflutningabifreiðar hækkar, tryggingagjaldið hækkar launakostnað í ferðaiðnaði, breyting á virðisaukaskattskerfinu hækkar gistingu og mat fyrir ferðamenn, að ótöldum verðlagsáhrifum sem verða nokkur. Þessar skattahækkanir ógna gullgæsinni sem gaf (Forseti hringir.) metþjónustujöfnuð um 20 milljarða nú á fyrri hluta ársins.