138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

skattlagning á ferðaþjónustuna.

[12:14]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni fyrir að taka málefni ferðaþjónustunnar fyrir hér á Alþingi, en ferðaþjónustan hefur verið í stórsókn á undangengnum missirum. Það er mikilvægt að þær aðgerðir sem ríkisstjórnin ætlar að ráðast í til þess að auka tekjur ríkissjóðs verði ekki með þeim hætti að við drögum úr þeirri sókn sem ferðaþjónustan hefur verið í. Hæstv. fjármálaráðherra nefndi það áðan að við væntum þess, m.a. í efnahags- og skattanefnd, að sjá skattatillögur ríkisstjórnarinnar, sem liggja því miður ekki fyrir og eru ómótaðar. Það er verulegt áhyggjuefni þegar næstum er komið fram í desembermánuð, hversu ofboðslega seint á ferðinni þessar skattatillögur ríkisstjórnarinnar eru og reyndar fjárlagafrumvarpið sjálft. Auðvitað setur sú nagandi óvissa, sem blasir við okkur öllum, ugg að mönnum en ég tel að ríkisstjórnin eigi að fara hóflega fram gagnvart þessari atvinnugrein. Ég vara líka við því að við förum mikið í þær skattahækkanir sem leiða til þess að verðlag í landinu hækki. Hækkandi verðlag hækkar skuldir heimilanna og hefur mjög erfið og neikvæð áhrif á stöðu samfélagsins. Ég hef nú óskað þess, og ég flyt reyndar þá ræðu ansi oft hér í hverri viku, að stjórnarandstaðan hefði nú fengið einhverja aðkomu að því hvaða hugmyndafræði ætti að innleiða við skattahækkanirnar. En því miður er það með okkur eins og íslenskan almenning að við fréttum þetta á blaðamannafundum ríkisstjórnarinnar, við erum lítið með í ákvarðanatökunni. En ég tek heils hugar undir með hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni að við þurfum að standa vörð um ferðaþjónustuna og efla hana. Við þurfum að blása til sóknar í íslensku samfélagi og ferðaþjónustan getur gegnt þar lykilhlutverki, en ákvarðanataka m.a. hæstv. ríkisstjórnar og Alþingis skiptir miklu (Forseti hringir.) máli í því samhengi.