138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

skattlagning á ferðaþjónustuna.

[12:16]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Frú forseti. Ég tel að náðst hafi mikill ávinningur á undanförnum vikum í því að tryggja að hugsanlegt komugjald, sem ákveðið verður í samstarfi við ferðaþjónustuna, muni ekki renna í stóru hítina, í stóra ríkissjóðinn, heldur verði til uppbyggingar innviða í ferðaþjónustu á Íslandi. Fyrst við þurfum að fara inn í fæðingarorlof, loka stofnunum, hækka skatta, var það mikil ávinningur að við náðum að vernda þetta gjald því að ég held að íslensk ferðaþjónusta þurfi miklu fremur að horfa til gæða í íslenskri ferðaþjónustu en verðs, gjalda eða kostnaðar. Samkeppnisforskot íslenskrar ferðaþjónustu liggur í gæðum hennar, í innviðunum, í þjálfun starfsfólks, í stýringu á álagi sem viðkvæmir ferðamannastaðir verða fyrir. Bókanir fyrir næsta ár eru góðar og það er alveg ljóst að álagið á lykilstaði okkar verður gríðarlega mikið næsta sumar. Þess vegna þurfum við miklu fremur að hafa áhyggjur af því hvar gæðin liggja en hvar gjöldin liggja. Í sjálfu sér á fjöldi ferðamanna ekki að vera markmiðið í íslenskri ferðaþjónustu heldur hitt, hver arðsemin er af þeim ferðamönnum sem koma til landsins, hvaða fjármunir verða eftir í landinu og hvað þeir skilja eftir. Það leiðir sér hugann að því hver staða ferðaþjónustunnar, gullgæsarinnar, er samanborið við aðrar atvinnugreinar í þessu landi.

Við heyrum af því sögur að Mývetningar í ferðaþjónustu höfðu einn og hálfan til tvo milljarða króna í tekjur á síðasta ári meðan landbúnaðurinn í sömu sveit velti á milli 200 og 300 milljónum. Það sýnir að við þurfum að horfa miklu betur á hvaða möguleika við höfum í ferðaþjónustu vegna þess að við sjáum það í þeim tillögum sem koma frá Samtökum atvinnulífsins að menn horfa á mannaflsfrekar, þjónustumiðaðar atvinnugreinar sem eiga að leggja til fé í formi tryggingagjalds. Menn vilja frekar vernda sjávarútveg, orkufrekan iðnað, þegar við horfum á sanngjarnt gjald fyrir auðlindir í þessu landi.