138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:51]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður talar um að fyrirvararnir séu til að verja okkur. Ég ætla ekki að gera lítið úr blindu fólki en það er eins og að vera með blindan markmann í fótbolta ef þessir fyrirvarar eru til þess að verja okkur. Þetta er alveg fáránlegt.

Hv. þingmaður talar um áhættu, að áhætta sé í því falin að samþykkja þetta ekki. Ég spyr hins vegar: Hvaða áhætta er í samningnum? Telur hún enga áhættu varðandi stjórnarskrána, telur hún enga áhættu varðandi efnahagslega þáttinn og telur hún enga áhættu varðandi lagalega þáttinn í þeim samningi sem hún vill endilega samþykkja? Er engin áhætta þar?

Hvaða áhætta er eftir fyrir íslenska þjóð ef við samþykkjum ekki þennan samning? Nú er ljóst að við fáum lánin, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur sagt það, Norðmenn hafa sagt það. Hvaða áhætta er þá eftir núna? Er það hættan á að við komumst ekki í Evrópusambandið?