138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:02]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að við hv. þingmaður getum verið sammála um að hægt hefði verið að halda betur utan um þetta mál. Ég ætla að taka undir margt af því sem kom fram í máli hans hér áðan. Ég hefði líka viljað sjá miklu meiri samstöðu og ekki síst í ljósi ýmissa mistaka sem gerð hafa verið. Það er auðvelt að standa í púlti þingsins og vera vitur eftir á og segja að við hefðum getað gert hitt og þetta. Eftir á að hyggja hefði örugglega verið rétt að kalla sendiherra Breta og Hollendinga heim, undir það getur maður tekið. En það má líka segja að í tvígang hafi þingið, Alþingi Íslendinga, tekið fram fyrir hendurnar á framkvæmdarvaldinu. Það var í desember í fyrra þegar Brussel-viðmiðin voru komin inn. Utanríkismálanefnd setti strax sínar forsendur inn, sem hafa yrði sem viðmið, og síðan aftur í sumar þegar Alþingi Íslendinga sameinaðist um að standa vörð um hagsmuni Íslendinga. Þá var lagt fram frumvarp sem síðan var samþykkt sem sérstaklega stendur vörð um hagsmuni Íslendinga þar sem sagt er: Við munum standa við skuldbindingar okkar (Forseti hringir.) svo lengi sem við getum greitt þær.

Ég spyr hv. þingmann: Er hann ekki sammála þeirri nálgun að (Forseti hringir.) við hefðum náð betri árangri ef ríkisstjórn Íslands hefði eftir sumarþingið (Forseti hringir.) tekið okkur í stjórnarandstöðunni með og með því gert (Forseti hringir.) okkur ábyrg með ríkisstjórninni?