138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:12]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka þingmanninum kærlega fyrir þessa hugmynd. Ein hugmynd er komin fram, það er þó ánægjulegt. Þá geta ágætir stjórnarþingmenn fullvissað sig um að þingmenn í stjórnarandstöðu hafa hugmyndir. En fram hefur komið önnur hugmynd og hún snýst um að senda valinkunnan hóp þingmanna á erlenda grund til að ræða við þingmenn annarra þjóðþinga og þá sérstaklega Breta og Hollendinga um málið og útskýra fyrir þeim, maður á mann, hagsmuni Íslendinga. Ég heyri að hv. þingmanni finnst sumir aðrir þingmenn hafa gengið svolítið langt í gagnrýni sinni á það hvernig ríkisstjórninni hefði tekist að fylgja málinu eftir. Mig langar þá að kanna hug þingmannsins til ágætrar hugmyndar sem hv. þm. Birgitta Jónsdóttir hefur m.a. talað fyrir, og eins hefur Pétur Blöndal verið á útrásarskónum frá því í sumar með þá hugmynd, að fara út í þann góða víking að tala okkar máli þarna úti.