138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:18]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég vil beina til forseta athugasemd um það hvernig hann stýrir þessari samkomu hér í dag. Í ljósi þess hve stjórnarliðar eru áhugalausir um umræðuna — þeir sitja líka mjög fáir í þessum sal og eru ekki margir á mælendaskrá — er mikilvægt að við skjótum á fundi í forsætisnefnd og að þeir aðilar í forsætisnefnd komi saman til þess að ræða framvindu þessa fundar því að hér bíður okkar líka það verkefni að ræða fjáraukalögin sem er mikilvægt að klára og koma til nefndar.

Ég beini því til hæstv. forseta að við gerum hlé á þessari umræðu, sérstaklega í ljósi þess mikla áhugaleysis sem virðist ríkja hjá stjórnarþingmönnum um þetta mikilvæga mál, og klárum í það minnsta að ræða fjáraukalögin þannig að fjárlaganefnd geti hafið störf við það mikilvæga mál. Við erum orðin allt of sein að ræða fjárlögin, fjáraukalögin og skattamálin. Með sama áframhaldi verður (Forseti hringir.) eitt allsherjarklúður í störfum þingsins, herra forseti.