138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:19]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Þannig að það sé alveg á hreinu og forseti þurfi ekki að velkjast í vafa um að ég er að ræða fundarstjórn forseta vil ég spyrja hæstv. forseta hvort þeim þingmönnum sem lögðu mikla áherslu á það í morgun að fundað yrði í allan dag og fram á kvöld um Icesave sé ekki kunnugt um að þessi umræða fer hér fram. Getur hæstv. forseti upplýst um það hvort það séu einhver önnur störf sem banna meiri hluta þingmanna að vera hér, þeim meiri hluta sem í morgun samþykkti að við skyldum funda kvölds og morgna um þetta mál? Eru þeir ekki hér staddir? Höfðu þeir ekki áhuga á að ræða þetta? Hvar eru þeir hæstv. ráðherrar sem komu í ræðustól og töluðu digurbarkalega um að mönnum væri engin vorkunn að vera hér í þessari umræðu? Hvar eru þeir ráðherrar?

Hvar er hæstv. utanríkisráðherra sem gæti upplýst okkur um mikilvæg atriði sem varða það hvernig Evrópuþingið er að reyna að kúga okkur til þess að samþykkja Icesave? Evrópuþinginu er beitt til að kúga okkur til þess að samþykkja Icesave. (Forseti hringir.) Hvernig á að skilja þetta? (Forseti hringir.) Hvar eru þeir þingmenn og ráðherrar sem kröfðust þess (Forseti hringir.) að fundað yrði linnulaust (Forseti hringir.) næstu sólarhringana um (Forseti hringir.) Icesave-málið? (Gripið fram í: Hvar eru sjálfstæðismennirnir?)