138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:21]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Það eru hæg heimatökin því að ég ætla að beina því til formanns utanríkismálanefndar, en svo vill til að hann er starfandi forseti líka, að fundað verði um bréfaskipti Browns og forsætisráðherra. Hvað vitum við núna? Frumkvæði til þess að upplýsa þingið er aldrei hjá ríkisstjórninni og ég vil því fá það upplýst á fundum utanríkismálanefndar hvort fleiri bréf eru falin í skúffum ráðuneytanna, hvort sem það er í forsætis- eða utanríkisráðuneyti. Ég vil líka fá umfjöllun utanríkismálanefndar um þennan makalausa þrýsting af hálfu Evrópusambandsþingsins, sem mér finnst miður.

Ég vil sérstaklega beina því til formanns utanríkismálanefndar hvort hann taki ekki við þessari beiðni minni og taki afstöðu til hennar. Á meðan getur þingið haldið áfram með dagskrána, gert hlé á þessu máli og farið að ræða þau ömurlegu mál sem bíða okkar, þ.e. skattamál ríkisstjórnarinnar, en þau verða að komast á dagskrá. Við skiljum það, við erum tilbúin í þá umræðu og þess vegna ítrekum við beiðni okkar og framlag í þessu til þess að liðka fyrir umræðunni. Gerum hlé á þessari umræðu og förum (Forseti hringir.) að tala um önnur mál.