138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:12]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Ásbirni Óttarssyni fyrir andsvar hans og spurningu.

Jú, ég hefði talið að það væri sniðugra. Það er ein af ástæðunum fyrir því að ég hef velt því fyrir mér mjög alvarlega frá því að ég fór að kynna mér þetta mál hvort þessir menn sem tóku sæti í samninganefndinni og jafnvel þeir sem sátu í stjórn innstæðutryggingarsjóðsins, hvort þeir hefðu almennt kynnt sér lögin og kynnt sér tilskipunina um innstæðutryggingar. Ég sat fund með áðurnefndum fjölfræðingi, Indriða H. Þorlákssyni, sem hefur nú verið einn helsti talsmaður fjármálaráðuneytisins í þessu máli, þar sem ég benti honum á þetta ákvæði í lögunum. Mín upplifun var sú að hann kæmi nánast af fjöllum, það væri alveg á valdi innstæðutryggingarsjóðsins, að taka ákvörðun um að borga þetta út í íslenskum krónum. Það er eins og þetta (Forseti hringir.) hafi aldrei verið skoðað.