138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:15]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður nefndi í máli sínu að Icesave-útrás Landsbankans hefði m.a. byggst á lagaverki, tilskipanaverki frá Evrópusambandinu um fjármálamarkaði sem hefði í raun og veru opnað þá leið fyrir Landsbankann sem seinna varð það Icesave-farg sem nú hvílir á þjóðinni. Þess vegna vil ég spyrja hv. þingmann hvort hún telji ekki að í ljósi þess að þetta á allt uppruna sinn í lagaverki Evrópusambandsins, sem við síðan lögtókum, sé einkennilegt að fréttir berist af því að hið sama Evrópuþing og bjó til þennan lagaramma sendi okkur tóninn þessa stundina og reyni að beita okkur pólitískum þvingunum í þessu tiltekna máli með því að reyna að tengja það Evrópusambandsaðildarumsókn okkar. Ég ítreka að ég mundi ekki syrgja það þó að sú umsókn tefðist en engu að síður er mjög sérkennilegt að einmitt það þing sem bjó til lagaverkið sem framkallaði (Forseti hringir.) Icesave-óskapnaðinn skuli vera sama þingið og hefur síðan í hótunum við okkur sem sjálfstæða og fullvalda þjóð. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)