138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:22]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að hún sé bara að segja hlutina eins og þeir eru. Þó að ég hafi margt út á störf samninganefndarinnar að setja er þeirri samninganefnd sem kom með þessa hörmulegu Icesave-samninga á sínum tíma að vissu leyti líka vorkunn vegna þess að, eins og maður upplifði það, skilaboðin frá ríkisstjórninni, þessum tveimur formönnum, forsætisráðherra og fjármálaráðherra, voru mjög skýr og þau voru bara: Skrifum undir, klárum bara málið, við bara ljúkum þessu af. Þá hafi menn bara kvittað undir án þess að gera sér raunverulega grein fyrir því undir hvað þeir voru að skrifa, kannski vegna þess að þeir litu á sig eins og sakamenn, eins og fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar orðaði það, og yrðu bara einhvern veginn að taka þetta á sig. Eins og ég nefndi að formaður samninganefndarinnar hafi sagt, eins og Kristur á krossinum, (Forseti hringir.) bara axla þessar byrðar fyrir hönd Evrópusambandsins.