138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:24]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir þessi orð hv. þm. Péturs Blöndals, ég held að fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar og fyrrverandi utanríkisráðherra hafi þarna verið að vara við.

Því miður virðist það vera þannig að stór hluti stjórnarliða hefur neitað að horfast í augu við hvers konar upphæðir þetta eru, hvers konar samningur þetta er. Við megum ekki gleyma því að þó að hér sé kominn einhver viðaukasamningur þá standa enn í samningnum, þessum hörmulega nauðungarsamningi, meira og minna öll ákvæðin sem við gerðum athugasemdir við í sumar. Ég get því ekki séð það öðruvísi en að þarna komi fram viðkomandi einstaklingur sem hefur geysilega miklar áhyggjur af þjóð sinni, geysilega miklar áhyggjur af því hvernig í ósköpunum við eigum að ráða við allar þessar skuldir.

Ég fæ það ekki til að ganga upp, alveg sama hvernig ég velti hlutunum fram og til baka fyrir mér, hvernig í ósköpunum við eigum að geta staðið undir þessum skuldbindingum ásamt (Forseti hringir.) öllum öðrum skuldbindingum sem við tökum á okkur.