138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:26]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Eins og ég nefndi í ræðu minni hef ég töluverða reynslu af fyrirtækjaráðgjöf og því að ráðleggja fyrirtækjum sem eru í miklum greiðsluörðugleikum. Mín reynsla er einfaldlega sú að kröfuhafar hætta ekki svo lengi sem þeir telja einhvern möguleika á því að fá peninga. Ég held að það sé alveg á hreinu að svo lengi sem Bretar og Hollendingar telja einhverja möguleika á því að við getum greitt þeim eitthvað upp í það sem þeir telja að við skuldum þeim fari þeir ekkert neitt og haldi áfram að semja.

Við framsóknarmenn töluðum fyrir því í sumar og lögðum fram tillögur hér í þinginu, sem voru því miður felldar, um að við fengjum færustu samningamenn í heimi, leituðum uppi þessa klárustu menn í heimi sem hv. þm. Pétur Blöndal talaði um, og fengjum þá til að semja fyrir okkur við reyndustu og bestu samninganefndir í heimi, sem eru náttúrlega samninganefndir Breta og Hollendinga. (Forseti hringir.) Við þyrftum bara að vera með besta fólk sem við gætum mögulega fengið.