138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:12]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum kærlega fyrir þessa spurningu.

Í upphafi skal það skoðað að það hefur komið fram að Bretar og Hollendingar treysta ekki íslenskum dómstólum og þess vegna vilja þeir ekki að málin séu rekin hér. Ísland er sjálfkrafa aðili að EFTA-dómstólnum þar sem við erum aðilar að EES-samningnum sem leiddi það af sér að við þurftum að innleiða þessa reglugerð sem sett var hér 1999. Þessi krækja sem verið er að fara með — þeir eru raunverulega að reyna að komast í kringum það, það þarf fleiri dómstig til að samþykkja komi það í ljós að Íslandi beri ekki að greiða þessar upphæðir eins og náttúrlega allir vita og viðurkenna, það er í aðfaraorðum frumvarpsins að okkur ber ekki lagaleg skylda til að greiða þessar skuldir, það er vitað fyrir fram. En þessi krækja með EFTA-dómstólinn er náttúrlega bara leikur hjá þeim og líka af því að íslenska ríkið getur sótt um að fá ráðgefandi álit hjá EFTA-dómstólnum ... (Forseti hringir.) Ég verð að svara þessu aðeins seinna fyrst tíminn er búinn.