138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:16]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur fyrir ágæta spurningu. Oft hefur það gerst að þegar ríkisstjórnin sjálf og stjórnarflokkarnir eru ráðþrota koma þau og segja: Hvað með ykkur? Hvað með ykkur? Hvað ætlar Framsóknarflokkurinn að gera í þessum málum? Það er því fínt að þetta er komið hér fram.

Réttarstaðan er sú að það gilda lög í landinu. Þau lög gilda. Það er ekkert flóknara en það. Hér er lagt til að þeim lögum verði kollvarpað. Þau lög eru ítarleg og það bar að kynna þau fyrir Bretum og Hollendingum, sem var gert, með þeim fyrirvörum sem við komum inn í þau. Það var samið um lögin, sem ég verð að halda að hafi ekki verið vilji löggjafans þegar lögin voru samþykkt. Framsóknarflokkurinn samþykkti þau lög ekki en það hlýtur að hafa verið vilji þeirra þingmanna sem greiddu atkvæði með þeim að þau mundu gilda.

Það er þá Breta og Hollendinga að eiga næsta leik og þeir verða þá bara (Forseti hringir.) að sækja okkur hér á landi. Það er ekkert flóknara en það.