138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:23]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður skildi ekki spurninguna alfarið. Ef við getum ekki borgað fyrstu eða aðra afborgunina, bara vextina því þá þurfum við ekki að borga afborgun. En ef við getum ekki borgað vextina þá getum við enn síður borgað gjaldfellt lán. Hvað gerist ef ríki, íslenska ríkið, getur ekki staðið við ríkisábyrgð? Hvað er það eiginlega? Hvers lags staða kemur upp? Í hvaða stöðu eru samningamenn okkar að tala við Breta og Hollendinga? Munu þeir taka Landsvirkjun upp í? Munu þeir heimta fiskveiðiréttindi? Eða í hvaða stöðu er Ísland þá til að greiða? Þetta er eitthvað sem við þurfum að velta fyrir okkur, því þessi staða gæti komið upp. Ég er ekki að segja að hún komi upp. (Gripið fram í.)

Síðan langar mig til að spyrja hv. þingmann. Hér liggja fyrir tvö bréf frá forsætisráðherrum tveggja landa, annar er hæstv. forsætisráðherra Íslands og þeir virðast vera að lýsa tveimur algjörlega aðskildum plánetum. (Forseti hringir.) Í hvert stefnir þegar samningsaðilar hafa þessa sýn á samninginn?