138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:24]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég biðst afsökunar á að hafa misskilið spurninguna. Nú skil ég hana fullkomlega og hún gengur út á það ef íslenska ríkið getur ekki einu sinni borgað vexti, þýðir það þjóðargjaldþrot. Standi ríki ekki undir ríkisábyrgð, þýðir það þjóðargjaldþrot.

Þjóðargjaldþrot getur birst í því að þurfi að skera hér niður allar erlendar skuldir, sem væri kannski ekkert svo slæmt út af því að við erum fyrst og fremst í skuldakreppu, því annars drýpur hér gull af hverju strái, eins og ég hef sagt hér áður, því að við eigum hér mikla og góða og sterka innviði. Verði sú leið ekki farin að fara í þjóðargjaldþrot — ég er ekki að hræða þjóðina, við verðum að velta þessum hlutum upp — geta erlendu aðilarnir, Bretar og Hollendingar, gripið hér í grein 2.1.2.2 sem ég benti á áðan á bls. 30 í frumvarpinu og sótt eignir sem eru fullnustuhæfar. Þá koma til ríkisfyrirtæki, já, eins og Landsvirkjun. (Forseti hringir.) Seinni spurningunni hef ég ekki tíma til að svara, kannski á eftir.