138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:27]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það getur verið ágætt að leggja trúnað á það sem fjölmiðlar segja, en oft kann að vera heppilegt að hafa vaðið fyrir neðan sig þegar menn fara í ræðustól á Alþingi og ræða mál af þessum toga. Og kannski kanna til þrautar innihald þess sem kemur fram í fjölmiðlum, a.m.k. áður en menn fara með fullyrðingar af þessum toga.

Ég vil líka upplýsa að ég hef þessa samþykkt undir höndum og mun leggja hana fram á fundi utanríkismálanefndar í fyrramálið enda hefur fundur þar verið boðaður að beiðni stjórnarandstöðunnar.

En ég vil spyrja hv. þingmann að eftirfarandi: Komi nú í ljós að ekki sé innstæða fyrir þessum stóru orðum og þessum fréttaflutningi, mun þá hv. þingmaður draga það til baka sem hún sagði hér um þetta mál, eða vill hún ekki hafa það sem sannara reynist?