138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:58]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svo virðist vera að tími hæstv. forsætisráðherra sé kominn, a.m.k. er hann kominn hér í ræðustól á Alþingi og hún er farin að tala í þessu mikilvæga máli og kominn tími til.

Ræða hennar var mjög yfirgripsmikil og greinilega svör við mörgu af því sem hefur komið fram í máli þingmanna, bæði í dag og í gær og þá daga sem umræðan hefur staðið yfir og náttúrlega ekki möguleiki að bregðast við því öllu. Mig langar til að inna hæstv. forsætisráðherra eftir því hvað henni finnist um þær fullyrðingar mínar um að friðhelgisrétturinn og náttúruauðlindaákvæðin séu fyrir borð borin þar sem þau eru komin í viðaukasamninginn og eru því hluti af honum og um samningana gilda bresk lög og eftir þeim er dæmt hjá breskum dómstólum, þar sem samningsaðilarnir hafa svo sem ekkert um þennan skilning að segja, því þegar er ágreiningur, eru það dómstólarnir sem hafa síðasta orðið. (Forseti hringir.)