138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:05]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hvernig eiga menn að leysa úr svona ágreiningi ef aðilarnir eru ósammála? Ég segi að við verðum að byggja á þeim lagareglum sem um efnið fjalla. Það er einfaldlega krafa okkar núna að það farið verði að lögum. Viðmælendur okkar í þessu máli, Bretar og Hollendingar, hafna því. Evrópusambandsríkin hafa líka hafnað því og því miður hafa Norðurlöndin líka neitað okkur um þann rétt, þau hafa ekki sýnt okkur neinn stuðning í þeirri sjálfsögðu kröfu að þegar ekki fást ásættanlegir samningar um niðurstöðu þessa máls verði dómstólaleiðin farin. Er þetta leið sem er jafnslæm því að tapa málinu að fullu fyrir dómstólum? Ég segi já, það er enginn vafi á því vegna þess að við erum nú að skrifa undir ríkisábyrgð fyrir því að greiða að fullu hvern einasta reikning, hvert einasta pund og hverja einustu evru, alla lágmarkstrygginguna með vöxtum. Hvernig getur niðurstaðan orðið verri? Jú, hún gæti kannski orðið verri en lögin kveða á um vegna þess að samkvæmt lögum á innstæðutryggingarsjóðurinn rétt á því að snúa kröfunum á sig í íslenskar krónur en ríkisstjórnin er að taka á sig alla skuldbindinguna í pundum (Forseti hringir.) og evrum. Þetta er jafnvel verra en að fá dóm.