138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:07]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir að taka þátt í þessari umræðu og í ljósi þess að hún náði ekki að segja allt sem hún vildi segja, vona ég að hún haldi áfram að taka þátt og komi aftur inn í umræðuna.

Mig langar að spyrja hæstv. forsætisráðherra út í hina svokölluðu jafnræðisreglu samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Ef ég skildi ráðherra rétt núna áðan gerði hún frekar lítið úr þeirri grein eða því sem haft var eftir Daniel Gros, sérfræðingi í peningamálum. Mig langaði að spyrja hæstv. ráðherra: Um hvað fjallar jafnræðisregla samningsins um Evrópska efnahagssvæðið? Ef við teljum að hún hafi verið brotin gagnvart okkur er hæstv. ráðherra tilbúin að láta reyna á það hvort jafnræðisregla samningsins um Evrópska efnahagssvæðið hafi verið brotin gagnvart Íslandi?

Ég vil gjarnan benda hæstv. ráðherra einnig á það að alþjóðasamfélagið er örlítið stærra en Evrópusambandið, það eru nokkuð fleiri lönd í því. En ég spyr sem sagt að þessu: Er hæstv. ráðherra til í að láta reyna á það (Forseti hringir.) hvort jafnræðisreglan hafi verið brotin gagnvart íslensku þjóðinni?