138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:13]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Það er alveg sama hvað ég segi úr þessum ræðustól, virðulegi forseti, þetta eru allt slæmar ræður sem ég flyt að mati síðasta ræðumanns, alveg sama hverjar þær eru. Ég veit ekki hvað ég hef gert hv. þingmanni, það er alveg sama hvort ég segi eitthvað jákvætt eða neikvætt hérna, þetta eru allt slæmar ræður. Hún verður bara að eiga það við sjálfa sig. Þetta er allt satt og rétt sem ég sagði hér um hvaða áhrif það hefði ef við létum bara Icesave-samningana liggja.

Sérfræðingar hafa farið yfir þetta, hvort verið sé að brjóta stjórnarskrána, ekki bara Sigurður Líndal heldur miklu fleiri aðilar. Við vorum með lögfræðinga hjá okkur sem fóru yfir þetta mál, Helga Áss Grétarsson, Benedikt Bogason, Eirík Tómasson, Björgu Thorarensen. Ég hef ekki heyrt þessa aðila segja að við séum að brjóta stjórnarskrána.

Það er auðvitað alveg sjálfsagt að nefndin sem fær málið, væntanlega milli 2. og 3. umr., fari yfir ábendingar Sigurðar Líndals og ég tel að hún hafi kannski þegar gert það eða ég á von á því.