138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:04]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er hárrétt hjá hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni, að mínu mati er ekkert sem rekur svo á eftir málinu sem þessi ríkisstjórn er að gera núna. Hvort sem þær hótanir eða sá dráttur sem var á vinnu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og þeir fyrirvarar sem voru settir af hálfu Norðurlandanna hafa verið vegna þrýstings frá Bretum og Hollendingum á sínum tíma, sem kannski er ekki ólíklegt og var fullyrt að væri, og því var svo mikilvægt á þeim tíma að klára Icesave-samninginn, þá er það ekki fyrir hendi lengur.

Ég er algjörlega ósammála því sem hæstv. forsætisráðherra sagði áðan að það væri nauðsynlegt að ganga frá þessum Icesave-samningi núna til þess að hefja uppbyggingu í íslensku atvinnulífi. Hún rökstuddi þetta ekki frekar og hefur ekki svarað spurningunum um hvernig í þessum tengingum lægi. Ég sé ekkert samhengi þarna á milli. Það er miklu frekar það að ríkisstjórnin skuli vera að beita sér fyrir því að eyða tíma þingsins og þingnefnda í þetta mál sem dregur máttinn úr atvinnulífinu og þær aðgerðir sem ríkisstjórnin hefur staðið fyrir og aðgerðaleysi þegar kemur að málefnum orkufreks iðnaðar og sjávarútvegs og ferðaþjónustu, núna með aukinni skattheimtu, það er miklu frekar þetta sem er að letja atvinnuvegi okkar. Frá þeirri stefnu þarf ríkisstjórnin að hverfa.

Þessi samningur hefur ekkert með þetta að gera lengur, okkur liggur ekkert á. Við eigum að taka okkur þann tíma í þetta mál sem við þurfum, virðulegi forseti.