138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:08]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta eru kunnugleg vinnubrögð hjá hæstv. forsætisráðherra, að ganga um hótandi. Hún hótaði frostavetri, á þeim tíma sem hún ætti að vera að blása þjóðinni von í brjóst kemur hún í ræðustól og hótar. (Gripið fram í.) Hún sem hefur orðið algjörlega undir í viðræðum sínum og vinnu gagnvart viðsemjendum okkar, Bretum og Hollendingum, er einskis virt, þar getur hún ekki hótað og þá kemur hún hingað heim og hótar okkur. (VigH: Sparka í hundinn.) Já, það er alveg magnað að hlusta á þennan málflutning í raun, virðulegi forseti, hvernig hæstv. forsætisráðherra talaði hér áðan. Það væri algjört lykilatriði — voru hennar orð — að þessi samningur yrði samþykktur og það strax til þess að endurreisn íslensks efnahagslífs og atvinnulífs gæti hafist.

Það er nákvæmlega sama og segir í stefnuskrá Samfylkingarinnar um aðildarumsókn að ESB, þetta er sami tónninn og er þar. Og hvað hefur gerst? Það hefur ekkert gerst og það mundi ekkert gerast á þeim vettvangi, virðulegi forseti, ekkert þó að við mundum samþykkja Icesave og haga okkur að öðru leyti eins og ríkisstjórnin hagar sér.

Það er nefnilega þannig að efling atvinnuveganna er grundvöllurinn að auknu trausti á íslensku þjóðinni erlendis. Það eru auknar tekjur, aukin útflutningsverðmæti, að við sýnum fram á að við getum staðið við skuldir okkar, að við getum borgað og brauðfætt okkur. Það er það sem þetta snýst um. Ríkisstjórnin virðist ekki átta sig á því og sérstaklega ekki samfylkingarþingmenn og -ráðherrar. Það er eins og þeir haldi það að með því að ganga í Evrópusambandið og þjónkast öllu sem þaðan kemur verði komið með fötur fullar af peningum.

Það var áhugavert að heyra í þingmanni á (Forseti hringir.) Evrópuþinginu í gær, í tíufréttum sjónvarpsins, (Forseti hringir.) þegar hann sagði að nú væru Íslendingar komnir á hnén, tilbúnir að koma í sjóði (Forseti hringir.) Evrópusambandsins og þiggja þaðan ölmusur, virðulegi forseti.