138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:11]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir þetta góða andsvar. Um það snýst þetta mál hjá þessari ríkisstjórn, a.m.k. helmingnum af henni, þ.e. þeim hluta sem tilheyrir Samfylkingunni, að vera á hnjánum úti í Brussel að sækja þangað peninga. Enda kom það fram í fyrirspurn sem ég lagði fyrir hæstv. utanríkisráðherra fyrr í þessum mánuði hversu mikið af styrkjum yrði veitt til Íslands og hvernig lán og lánakjör mundu bjóðast um leið og við erum umsóknarríki að Evrópusambandinu. Þá kom það hreinlega í ljós að utanríkisráðherra hafði sagt ósatt í fréttum fyrr í vikunni.

Þetta er með ólíkindum og ég er mest hrædd um að þetta mál snúist um að flækja okkur svo inn í fjárhagskerfi Evrópusambandsins að þegar upp verður staðið komumst við ekki út úr því á ný og að þá verði þjóðin neydd inn í Evrópusambandið og einhvern veginn hef ég það á tilfinningunni að þessi Icesave-samningur sé hluti af þessu prógrammi sem er haldið leyndu fyrir þjóðinni, í það minnsta virðast hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra vita eitthvað meira en við almennir þingmenn vitum. Þá skal það líka bara koma fram í umræðunni ef það er búið að baksemja um þessa Icesave-skuldir.

Ég ætla að koma að spurningunni aftur af því að ég sá að hv. þingmaður hafði ekki ráðrúm til að svara henni: Hver á að standa undir greiðslum á Icesave-vöxtum sem eru 100 milljónir á dag, 9 milljarðar í 90 daga? Hæstv. forsætisráðherra gat ekki svarað því um daginn hvort það ætti að standa við gerða kjarasamninga og hækka persónuafsláttinn því að þetta væri svo dýrt, það kostaði 9 milljarða. Þetta eru bara 90 dagar af Icesave-vöxtum. Hverjir eiga að greiða þá þar sem landflóttinn (Forseti hringir.) verður mikill og er þegar hafinn, (Forseti hringir.) fjögur þúsund Íslendingar farnir af landi brott á (Forseti hringir.) síðustu níu mánuðum?