138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:16]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Frú forseti. Við höfum verið að ræða þetta mikilvæga mál dag eftir dag og stefnir í nótt eftir nótt núna. Ekki kvörtum við yfir vinnuálaginu heldur kvörtum við yfir því að við ættum kannski ekki að vera að ræða þetta núna, sérstaklega ekki þegar svo virðist sem mesta pressan sé farin af málinu samkvæmt því sem hæstv. forsætisráðherra sagði í dag þegar hún heiðraði okkur með nærveru sinni.

Frú forseti. Ég hlýt að spyrja hvort mögulegt sé að fá hæstv. forsætisráðherra og fjármálaráðherra og jafnvel utanríkisráðherra líka hingað í salinn.

(Forseti (ÞBack): Forseti getur upplýst að allir þessir hæstv. ráðherrar eru staddir hér í húsinu þó að þeir sitji ekki í salnum rétt í augnablikinu.)

Ég treysti því að þeir hlýði á mál mitt. (Gripið fram í.) Það eru einhverjir í hliðarsal. Hér er kominn hæstv. fjármálaráðherra, dyggur sem endranær. Ég verð að þakka honum kærlega fyrir hversu þaulsætinn hann er hérna. Það er ekki upp á hann að klaga í þessum efnum en þar sem ég ætlaði að fara aðeins yfir nokkur atriði sem væri gott að fá svör við þykir mér vænt um að sjá hann hér og ég treysti því að hæstv. forsætisráðherra, sem ég ætlaði líka að beina spurningum til, sitji og hlýði á mál mitt einhvers staðar í húsinu.

Ég ætla ekki að fara efnislega yfir málið, það hefur verið gert í löngum ræðum. Ég vísa í minnihlutaálit 3. minni hluta fjárlaganefndar sem fer ítarlega yfir þetta allt saman og rekur það mjög vel, sérstaklega ágallana á málsmeðferðinni sem eru miklir. Það að frumvarpið hafi verið dregið út úr nefnd án þess að skoða þau ítarlegu nefndarálit sem gerð voru í efnahags- og skattanefnd er náttúrlega með ólíkindum. En um það hefur verið fjallað.

Ég hlýt að gera athugasemdir við málflutning hæstv. forsætisráðherra í dag þar sem hún kom í pontu — og ég vitna í orð hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur þegar hún sagði að hún hefði komið upp ísköld sem grýlukerti. Mér þótti það dálítið lýsandi. Hún kom hér upp með mikinn hræðsluáróður og boðaði frostaveturinn mikla ef þessu yrði ekki komið í gegn í hvelli. Hæstv. forsætisráðherra lýsti sig ósammála velflestum þeim sem hefðu nokkurn tíma gagnrýnt þetta frumvarp. Hún var ósammála hv. þm. Bjarna Benediktssyni þegar hann gerði athugasemdir sínar. Hún hefur áður lýst sig ósammála Dominique Strauss-Khan þegar hann sagði að ekki stæði á Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn væri ekki að bíða eftir Icesave heldur Norðurlöndin, hún var ósammála því líka. Hún var ósammála fyrrverandi hæstv. utanríkisráðherra, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, um gagnrýni hennar og svo mætti lengi telja.

Allt átti að fara í frost og upp í loft ef Alþingi samþykkti ekki Icesave. En ég hlýt að vekja athygli á því að Alþingi hefur samþykkt Icesave, Alþingi samþykkti lög um Icesave í sumar með öllum þeim fyrirvörum sem voru settir og það var verkefni hæstv. forsætisráðherra að fá þá samþykkta eða þá að byrja upp á nýtt. En þetta er ekki að byrja upp á nýtt.

Ég hef verið að velta mikið fyrir mér samskiptum Íslands og Breta og Hollendinga. Ég hef kallað eftir því trekk í trekk allt frá því við ræddum þetta í sumar. Þegar fyrirvararnir höfðu verið kynntir bað ég um að við fengjum ítarleg gögn yfir það hvernig þeir yrðu kynntir. Ég hafði áhyggjur af því að fyrirvararnir yrðu ekki kynntir með nægilega sterkum hætti, að alla sannfæringu mundi vanta í það. Hæstv. fjármálaráðherra hefur oft orðið mjög hvumpinn út af þeim málflutningi mínum og hefur sakað mig um að saka hann um ýmislegt, sem ég ætla alls ekki að gera og hef aldrei gert. En ég hlýt að mega setja fram gagnrýni mína á það sem mér finnst vera ábótavant í kynningu samninganefndarinnar, sérstaklega í ljósi þess að er ég búin að fara vel yfir öll gögn málsins. Ég sé ekki nema eina frásögn, frásögn af einum fundi Íslendinga með samninganefndum Hollendinga og Breta frá 1. og 2. september 2009. Það er eina fundargerðin sem er frá öllum þessum fundum sem ég á eftir að fara betur yfir. Hæstv. forsætisráðherra sagði áðan að hún kynni ekki að meta þann málflutning að fólk væri að draga það í efa að hún gengi sem harðast fram með hagsmuni Íslands að leiðarljósi, henni sárnaði að gefið væri í skyn að hún væri að gera eitthvað annað. Þá segi ég við hæstv. forsætisráðherra: Komdu og sýndu mér gögnin sem ég hef ítrekað kallað eftir. Ég vil sjá þessar fundargerðir, ég vil ekki þurfa að draga þetta allt með töngum. Á ég að þurfa að biðja Stöð 2 um að óska eftir þeim upplýsingum til að þær verði birtar? Er það málið? Eins og ég mun koma að á eftir varðandi bréfaskriftir hæstv. forsætisráðherra er það algjörlega óviðunandi og óafsakanlegt að það sé fjölmiðill sem fái slíkar upplýsingar fyrst sem Alþingi Íslendinga hefur verið að kalla eftir ítrekað í allt haust. Það er náttúrlega algjörlega óafsakanlegt.

Ég ætla aðeins að fara yfir þá fundargerð sem mér er svo umhugað um og ég biðst forláts, frú forseti, ef hæstv. fjármálaráðherra leiðist þetta. Hann hefur væntanlega heyrt þetta einhvern tíma áður hjá mér en það breytir því ekki að ég fæ ekki þær upplýsingar sem ég kalla eftir. Ef farið er í þessa ágætu fundargerð í gögnum málsins er öll frásögnin, sem er tæpar tvær síður, í miklum afsökunartón. Það er aldrei sagt: Íslendingar kynntu niðurstöðu Alþingis og greindu frá því að þetta yrði að samþykkja eða hafna, punktur. Nei, það er sagt: Málið er dálítið erfitt, við þurftum eiginlega að fallast á fyrirvarana. Við reyndum æðislega mikið að gera þetta öðruvísi en á endanum varð það þannig að fjárlaganefndin og þingið tóku málið að sér og við gátum ekki komist frá því, við urðum bara að fallast á þetta. En, krakkar mínir, hafið ekki áhyggjur. Við getum farið núna yfir stöðuna og reynt að finna einhvern sameiginlegan flöt á þessu, reynum að gera það. Þeir fóru yfir stöðu málsins og þetta var allt frekar kurteislegt greinilega. Það var byrjað á að fara yfir pólitísku afgreiðsluna og að þetta hefði verið tvísýnt og það hefði verið algjörlega nauðsynlegt að fallast á fyrirvarana og skilyrðin sem voru í lögunum, en sorrý með það, við skulum finna eitthvað út úr þessu.

Síðan koma Bretar og Hollendingar og segir hér, með leyfi forseta:

„Eftir nokkurt hlé sem gert var á sameiginlegum fundi gerðu Bretar og Hollendingar grein fyrir nokkrum atriðum sem þeir töldu vera grundvallaratriði.“

Síðan eru þeir útlistaðir. Aldrei í fundargerðinni er sagt: Íslendingar gerðu grein fyrir nokkrum atriðum sem þeir töldu vera grundvallaratriði. Það er held ég munurinn á þessu öllu saman, að við vorum ekki alveg með þessi grundvallaratriði á hreinu.

Síðan er eitt atriði sem kemur ekki einu sinni í lokin heldur um miðbikið. Eftir að Hollendingar og Bretar höfðu gert grein fyrir þessum atriðum var farið að finna út hvernig ætti að svara til um fundinn ef leitað yrði eftir upplýsingum um hann, sem mér finnst alveg kostulegt. Í miðri fundargerð hafa menn sest niður, á miðjum fundi, og sagt: Heyrðu, ef einhver spyr um þennan fund hvernig eigum við að svara því? Það hefur reyndar eitthvað klikkað í því að setja það niður fyrir sér, það hlýtur að vera, vegna þess að hér er flugvélafréttin mikla um minnisblaðaskrifin í flugvélinni, að það átti að hafa verið 2. september og þessi fundargerð er 1.–2. september, þannig að þeir hafa ekki alveg verið búnir að samhæfa sig hvernig þeir ætluðu að segja frá fundinum vegna þess að yfirskriftin er: Indriði man ekki hvað hann gerði í flugvélinni. En þetta er útúrdúr.

Það sem vekur svo athygli er að í lokin segir, með leyfi forseta:

„Við ræddum í þessu sambandi ýmsar formlegar leiðir sem mætti skoða til lausnar á þessu máli.“

Það eru fjögur atriði. Í fyrsta lagi var einhvers konar sameiginleg yfirlýsing sem gerði grein fyrir skilningi aðila á lögunum og með hvaða hætti mætti staðfesta samningana á grundvelli þeirra.

Önnur leið var að íslensk stjórnvöld mundu senda breskum og hollenskum stjórnvöldum bréf með skýringunum.

Í þriðja lagi hvort leið gæti falist í því að lánasamningnum yrði breytt, greiðsluferill lækkaður og lánstíminn lengdur eða opnuð heimild fyrir Ísland.

Þarna voru þrjú atriði. Það var sem sagt aldrei sem möguleiki í þessari stöðu að láta fyrirvarana standa, það var ekki einu sinni rætt. Mér finnst það mjög athyglisvert. Því hlýt ég að spyrja hæstv. fjármálaráðherra þar sem þetta er skrifað af aðstoðarmanni hans og hann hlýtur að þekkja það: Var aldrei rætt um þann möguleika í stöðunni við Breta og Hollendinga að láta lögin sem við samþykktum í sumar í lok ágúst standa óbreytt? Var sá möguleiki yfirleitt aldrei kynntur?

Ég vil aðeins halda áfram með þessi fundahöld. Það kom fram í umræðum í sumar að mikið hefði verið um fundi. Hæstv. utanríkisráðherra, sem ég treysti að sé í húsinu og sé að hlusta eins og hæstv. forseti gaf til kynna áðan, talaði mikið í sumar og haust um alla þá fundi sem hann hefði átt.

Hann sagði 22. október, með leyfi forseta:

„Þá svara ég bara fyrir mig, á síðustu fjórum vikum hef ég a.m.k. talað við þrjá þjóðhöfðingja beinlínis um Icesave-málið augliti til auglitis og 12–14 utanríkisráðherra Evrópusambandsríkjanna.“

Þetta eru nokkuð margir fundir.

Síðan sagði hann enn fremur, af því að hann hefur fengið þá spurningu hvort þessir fundir hafi þá bara verið einhverjir lyftufundir, með leyfi forseta:

„Ég vil upplýsa hv. þingmann um það að mínir fundir eru allir skipulagðir fyrir fram, þeir standa í 20–60 mínútur. Þar er oft farið yfir fyrir fram ákveðin umræðuefni og lyftufundirnir og aðrir fundir í ýmsum skúmaskotum eru ekki taldir með. En frá miðju sumri held ég að ég hafi talað við nánast alla utanríkisráðherra Evrópusambands um þessi mál, við framkvæmdastjóra NATO nokkrum sinnum og marga fleiri ráðherra.“

Þá spyr ég. Á þessum fyrir fram skipulögðu fundum, sem standa yfir í 20–60 mínútur, hlýtur að vera fyrir fram ákveðinn fundarritari og einhver sem tekur niður nótur. Ég spyr: Af hverju hefur ekki verið orðið við beiðni minni um að fá þessar fundargerðir? Hvað sagði hæstv. utanríkisráðherra á öllum þessum fundum og það sem kannski forvitnilegra er: Hvað sögðu þessir ágætu utanríkisráðherrar, þjóðarleiðtogar, framkvæmdastjórar alþjóðasamtaka og fleiri, hvað sögðu þeir við hæstv. utanríkisráðherra? Þetta vil ég fá að vita. Þegar hæstv. forsætisráðherra kveinkar sér yfir því að við trúum því ekki að hún hafi beitt sér af fullu alefli þá er þetta ástæðan, við fáum ekki gögnin nema við grátbiðjum og leggjumst á hnén og beitum fjölmiðlunum fyrir okkur.

Enn einn fundurinn sem hæstv. utanríkisráðherra átti 22. september — það er frétt um hann á visir.is 24. september og er frásögn af fundi ráðherra með Dominique Strauss-Khan, framkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Þar segir, með leyfi forseta:

„Á hinn bóginn sagði hann viðræður þeirra hafa verið hreinskiptar og gagnlegar. Þeir hafi rætt Icesave-málið í þaula og hann gert forstjóranum grein fyrir pólitískri stöðu þess á Íslandi. „Ég sagði honum jafnframt að það væri óviðunandi ef Icesave-málið hefði áhrif á afgreiðslu AGS. Sú deila kæmi sjóðnum ekki við.““

Frábært, gott. Þetta vil ég heyra. Ég vil heyra hæstv. utanríkisráðherra beita sér á alþjóðavettvangi. En af því þessi fundur hefur verið fyrir fram ákveðinn, skipulagður með fundarritara og skrifara, vil ég fá gögnin. Ég vil ekki þurfa að biðja um þetta eina ferðina enn.

Ég óskaði eftir gögnum um þau samskipti í sumar. Ég óskaði eftir því í ræðum á þinginu 20. ágúst og 22. október. En ég verð að viðurkenna, og tek þá undir kveinstafi hæstv. forsætisráðherra, að mér finnst mér ekki sýnd nægileg virðing hér á þessu háa Alþingi fyrst mér er ekki svarað.

Síðan fór hæstv. fjármálaráðherra líka á fullt af fundum. Ég ætla að vitna í ræðu hans líka frá þessum sama degi, 22. október, en þá segir hæstv. fjármálaráðherra í orðaskiptum við þá sem hér stendur um þetta sama mál, með leyfi forseta:

„… get ég fullvissað hv. þingmann og þingheim um að farið var nákvæmlega í þetta í samræmi við ákvæði laganna. Öll gögn málsins þýdd og send gagnaðilunum og síðan voru haldnir sérstakir kynningarfundir þar sem embættismenn, lögfræðingar, sem komið höfðu að vinnunni m.a. í sumar, og seðlabankastjóri eða aðstoðarseðlabankastjóri til að kynna hina efnahagslegu þætti málsins, fóru og funduðu í Haag með aðilum og síðan nokkru síðar í London, það voru hreinir kynningarfundir. Síðan um hálfum mánuði eftir það bárust fyrstu hugmyndir Breta og Hollendinga að viðbrögðum og þá voru þau viðbrögð samstundis kynnt fjárlaganefnd, forustumönnum stjórnarandstöðunnar og að sjálfsögðu í ríkisstjórn og í þingflokkum stjórnarflokkanna.

Síðan var tekist á um það í framhaldinu sem okkur þótti út af standa og ekki vera fullnægjandi frágangur í þeirra hugmyndum. Það náðist mikilsverður árangur í þeim efnum en ekki fyrr en á lokadögum. Þess vegna tók nú ferlið það langan tíma sem raun bar vitni og í raun og veru var það ekki fyrr en eftir fræga för til Istanbúl og síðan fimmtudaginn næstsíðasta sem loksins komst hreyfing á hluti …“

Þarna vísar hæstv. fjármálaráðherra í og nefnir nokkra fundi sem ég hef ekki enn þá fengið gögn um, þannig að þetta hefði átt að vera hæstv. ráðherra ferskt í minni. En í næstu ræðu á eftir bið ég um að fá þessar frásagnir. Ég segi, með leyfi forseta, fullt af fundum. Þeir hafa greinilega verið formlegir. Þess vegna óska ég eftir því að fá þessar fundargerðir. Ég vil fá að sjá hvernig fyrirvararnir voru kynntir. Af hverju hef ég ekki fengið að vita þetta? Það hljómar eflaust eins og ég sé haldin einhverri þráhyggju, en á meðan ég fæ ekki þær upplýsingar sem ég er búin að biðja um ætla ég að halda mig við þá þráhyggju. Það er ekki síst vegna þess, eins og ég sagði, að öll gögn málsins hafa verið sveipuð leyndarhjúp. Við höfum þurft að draga þau fram með töngum. Nú síðast þessi umræddu bréf sem voru í fréttum í gær, bréfaskriftir hæstv. forsætisráðherra við forsætisráðherra bæði Bretlands og Hollands.

Ég ætla aðeins að fá að rekja þetta vegna þess að mér finnst þetta um margt mjög merkilegt.

Þann 28. ágúst skrifar hæstv. forsætisráðherra, rétt eftir að við erum búin að samþykkja fyrirvarana á Alþingi, forsætisráðherrum Bretlands og Hollands bréf. Þetta eru að mörgu leyti ágætisbréf. Ég get alveg hrósað hæstv. forsætisráðherra fyrir þau. Þau voru kurteisleg og þau fara yfir sjónarmið Íslands og kynna þau. En svo líður og bíður eins og við vitum og það kemur ekkert svar. Við kölluðum ítrekað eftir þeim upplýsingum á Alþingi en ekkert gerðist. Síðast tjáir hæstv. forsætisráðherra — eftir því sem ég hef best fundið út — sig um þetta á Alþingi 5. nóvember og þá hafði ekki borist neitt svar. Hún var spurð um þetta í umræðunum eins og hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir vakti athygli á. Ef hæstv. forsætisráðherra hefði verið við umræðuna fram á kvöld í fyrradag hefði hún getað komið okkur öllum á óvart og sagt okkur þær fréttir, því það hefur náttúrlega verið leitt í ljós núna, að það er langt síðan þessu var svarað. Gordon Brown sendi hæstv. forsætisráðherra svarbréf 13. nóvember. Tólf dögum eftir að svarið barst og átta dögum eftir að forsætisráðherra svaraði því bréfi sá hún ástæðu til að upplýsa þjóðina í gegnum Stöð 2 um þau bréfaskipti. Það er ekki vegna þess að Alþingi hafi verið að kalla eftir því, heldur af því að það er fjölmiðill, Stöð 2, sem óskaði eftir þessum upplýsingum.

Þetta vekur ekki mesta athygli mína í öllum þessum bréfaskriftum. Það sem vakti athygli mína þegar ég fór að skoða þessa tímalínu og þessi bréf er að Hollendingarnir svöruðu bréfi sínu 12. nóvember, degi áður en Bretarnir svöruðu, Gordon Brown svaraði 13. nóvember. 17. nóvember ákveður forsætisráðherra að birta bréf Hollendinganna. Ég er með frétt af mbl.is frá 17. nóvember þar sem birt er svarbréf hollenska forsætisráðherrans til hæstv. forsætisráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur. Þar er gefið afrit af því ágæta bréfi. 13. nóvember sendir Gordon Brown bréfið, 12. nóvember sendir hollenski forsætisráðherrann bréfið, 17. nóvember birtir forsætisráðherra hollenska bréfið, 17. nóvember svarar hæstv. forsætisráðherra breska bréfinu, en við fréttum af þessum bresku bréfaskriftum 25. nóvember. Af hverju? Ef maður er bara í því að birta og skrifa bréf 17. nóvember — það hefur greinilega verið mjög afkastamikill dagur í bréfaskriftum hæstv. forsætisráðherra — af hverju var ekki bréf hæstv. forsætisráðherra Bretlands birt á sama tíma?

Ég óska eftir að hæstv. forsætisráðherra upplýsi mig um það. Ég sá henni bregða hérna fyrir áðan, ég veit að hún er hérna og ég óska eftir því að hún komi og segi mér frá þessu, vegna þess að það er einmitt út af svona misfellum og misræmi sem við tortryggjum einbeittan vilja hæstv. forsætisráðherra að berjast fyrir hagsmunum Íslendinga. Ég er ekki búin að fara efnislega í þetta ágæta bréf. Af hverju slær hún þessu ekki öllu saman?

Nú kemur fyrsta samsæriskenningin mín. Það er nefnilega vegna þess að ég fór — þegar ég uppgötvaði þetta — að skoða þessi bréf og bera þau saman. Þá var þetta nú fyrst athyglisvert. Þau eru nefnilega nánast samhljóða.

Það hefur verið farið vel yfir breska bréfið í dag, að það sé fjórar málsgreinar. Fyrsta málsgreinin snýst um að þakka hæstv. forsætisráðherra okkar fyrir bréfið. Önnur málsgreinin er um að okkar fólk er farið að hittast og ræða saman og hafi gert það strax eftir að hún sendi bréfið. Þriðja málsgreinin í bréfi Gordon Browns er um hversu glaðir þeir eru með þetta og allt það sem unnist hefur í þessu öllu saman. Fjórða málsgreinin er stuðningur eða von um að þetta klárist nú allt saman fljótt og vel og við getum lagt þetta til hliðar og farið að sinna frábærum samskiptum áfram. Þetta var sem sagt breska bréfið.

Hollenska bréfið er líka fjórar málsgreinar. Hollenska bréfið byrjar á því að þakkað er fyrir bréfið. Önnur málsgreinin fjallar um það að strax eftir að forsætisráðherra Íslands sendi bréfið hafi sendinefndirnar hist. Þriðja málsgreinin snýst einmitt líka um hvað þeir eru ánægðir með þetta allt og ánægðir með frumvarpið og trúi því að þetta klárist allt saman. Og seinasta málsgreinin snýst um að þetta sé nú bara byrjunin að einhverjum dásamlegum samskiptum.

Ég veit ekki hvort þessir menn hugsi svona afskaplega líkt en mér finnst þetta vera einum of mikil tilviljun. Ég verð að segja, frú forseti, að ég trúi ekki á svona miklar tilviljanir. Þetta er allt of mikil tilviljun fyrir mig. Þess vegna vil ég spyrja hæstv. forsætisráðherra og væri mjög glöð ef hægt væri að staðfesta að hún heyri þessa spurningu: Er um einhver önnur samskipti að ræða? Vegna þess að óneitanlega vekur það hjá mér furðu að annar svari tíu vikum eftir að hún sendi bréfið, 12. nóvember, hinn svarar 13. nóvember, og bréfin eru nánast samhljóða.

Því spyr ég hæstv. forsætisráðherra: Er um önnur samskipti að ræða? Var ýtt á eftir svari? Var gefin einhver forskrift að því svari sem ætti að fá? Var einhvers konar samráð haft með öllum þessum aðilum um svörin?

Ég óska eftir því að hæstv. forsætisráðherra greini frá þessu til þess einmitt að hún geti andað rólegar yfir því að við séum ekki að væna hana um eitthvað sem er ekki sanngjarnt. Ég er öll af vilja gerð að líta á þessi mál af fyllstu sanngirni. Þarf ég kannski að biðja Stöð 2 um að spyrja að þessu til að eiga einhverja von um að fá svar við spurningum mínum? Mér þætti afar vænt um ef hæstv. forsætisráðherra gæti svarað því hvort það geti verið að þessir tveir forsætisráðherrar tveggja Evrópusambandsríkja — kannski verður maður svona þegar maður fer í Evrópusambandið, allir hugsa bara nákvæmlega eins. Það er kannski það sem hefur gerst, þeir séu allir farnir að hugsa á sömu nótum og skrifa bréf á sama degi og eru með það nánast orðrétt vegna þess að þeir eru í svo náinni samvinnu í Evrópusambandinu.

Þá skulum við tala um Evrópusambandið í framhaldi af þessu.

Mikið hefur verið rætt um ályktun Evrópuráðsins síðan í dag. Hæstv. forsætisráðherra kom reyndar hingað upp til að segja að lítið væri nú að marka þetta, það hefðu bara verið einhver drög og hefði ekki verið eins og Bloomberg fréttaveitan og íslensku fréttamiðlarnir tóku eftir. Ég skal ekki dæma um það og reyndar er mér eiginlega alveg sama um það. Ég er hins vegar fullkomlega sannfærð um, burt séð frá þessari ályktun, það er náttúrlega grafalvarlegt mál ef satt reynist, að þetta tvennt tengist. Það hefur beinlínis verið sagt í mín eyru af breskum og hollenskum þingmönnum sem gerðu ráð fyrir að ég stæði að baki þessari umsókn og væri hlynnt umsókn Íslands að Evrópusambandinu, þeir sögðu við mig í samstarfi okkar á NATO-þinginu: Látið ykkur ekki dreyma um að þið komist inn í Evrópusambandið án þess að þið klárið þetta Icesave-mál. Ég sagði: Það er þá bara fínt, þið notið þetta ekki sem einhverja kúgun, mér er alveg nákvæmlega sama hvort við komumst inn í Evrópusambandið eða ekki. Ef þetta er það sem við þurfum að gera til að komast inn í það, þá er mér alveg nákvæmlega sama og heldur meiri verður andstaða mín við það.

Því segi ég við þá sem eru að reyna að beita okkur slíkum þrýstingi á Evrópuþinginu: Fínt, þið skuluð svo sannarlega setja þessa aðildarumsókn í hættu. Við skulum passa upp á að hún verði ekki sett í hættu. Við skulum bara draga hana til baka. Ef verið er að hóta okkur á þennan ósmekklega hátt, þá segi ég þetta: Drögum hana til baka og látum ekki bjóða okkur svona framkomu. Þetta er náttúrlega algjörlega óviðunandi. Hvers konar bandalag er það ef þetta reynist satt? Ég set þann fyrirvara á ef hæstv. forsætisráðherra hefur rétt fyrir sér að þetta hafi verið bara eitthvert snakk einhvers staðar, en ég leyfi mér að halda að eitthvað meira liggi þarna að baki.

Síðan er annað atriði með ólíkindum og ekki er hægt að draga það neitt til baka vegna þess að ég er með útskrift af þeirri frétt sem var í 10-fréttunum í gær. Þar segir, með leyfi forseta, breskur þingmaður, William Dartmouth, Evrópuþingmaður:

„Þegar Ísland var auðugt ríki höfðu landsmenn engan áhuga á að ganga í ESB, nú er Ísland gjaldþrota, því miður, og ríkisstjórnin hefur að sjálfsögðu komið sér fyrir í biðröðinni eftir aðild. “

Þarna er látið að því liggja að við séum beiningafólk sem göngum um betlandi og sníkjandi, komum okkur fyrir í biðröðinni. (Gripið fram í: Ríkisstjórnin.) Ég held nú ekki — (VigH: Bara ríkisstjórnin.) Ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingarinnar hefur komið okkur í þessa biðröð. En það er óneitanlega þannig að það er ekki rétt sem þessi ágæti þingmaður segir, það eru ekki landsmenn sem hafa áhuga á að ganga í ESB, það eru Vinstri grænir eins ótrúlegt og það hljómar, það eru Vinstri grænir og Samfylkingin sem vilja ganga í ESB.

Svo er það með þennan mikla skilning sem hæstv. utanríkisráðherra — mér hefði þótt gaman að hafa hann hér að hlusta á þetta vegna þess að hann fór til Spánar um daginn. Hann fór til Spánar, þvældist um allan Spán, fór í höfuðborgina og átti gagnlegar viðræður við utanríkisráðherrann, fór til Vigo og út um allt til að skoða sjávarútvegsmálin hjá Spánverjum.

Í frétt í Ríkisútvarpinu 22. nóvember sl. segir, með leyfi forseta:

„Össur segist hafa átt mjög gagnlegar viðræður við Moratinos utanríkisráðherra Spánar sem verði í forustu þegar að Íslendingar hefji sínar samningaviðræður eftir áramótin. Moratinos hafi tekið málstað Íslendinga ákaflega vel. Össur segist einnig hafa rætt við forustumenn í spænsku atvinnulífi, þar á meðal hafi verið rætt við helstu forustumenn í spænskum sjávarútvegi til að skýra málstað Íslendinga.“ — Nú er haft beint eftir ráðherranum: — „Það voru mjög gagnlegar viðræður og það verður að segjast eins og er að það var góður skilningur á málstað Íslendinga.“

Góður skilningur á málstað Íslendinga og hvað þýðir það? Að þegar við förum í þessar samningaviðræður segi Spánverjar bara: Heyriði, við höfum svo mikinn skilning á þessu að við ætlum að láta okkar hagsmuni víkja fyrir hagsmunum Íslendinga af því að við höfum svo mikinn skilning á þessum hagsmunum? Nákvæmlega eins og mikill skilningur er í Evrópusambandinu og mikill skilningur er í Bretlandi og Hollandi fyrir sjónarmiðum Íslendinga? Sögðu þeir þá: Við skulum láta sjónarmið og hagsmuni okkar víkja vegna þess að við höfum svo mikinn skilning á málefnum Íslendinga? Ónei, þvílíkur barnaskapur að halda slíku fram. Mikill skilningur. Það er athyglisvert vegna þess að 28. júlí var frétt um Spánverja og íslensk fiskimið á eyjan.is.

Þar segir, haft eftir spænska blaðinu El País, með leyfi forseta:

„Blaðið fullyrðir að spænski fiskiskipaflotinn líti á íslensk fiskimið sem fjársjóð. Í því samhengi er haft eftir Diego López Garrido, ráðherra ESB-mála, að Spánverjar mundu „hafa mikið að segja“ í komandi aðildarviðræðum. Ekki mætti „undir nokkrum kringumstæðum“ semja við Ísland þannig að fiskveiðihagsmunum Spánverja yrði teflt í tvísýnu.“

Nú er ég farin að blanda þessu tvennu saman, Icesave-samningnum og ESB, og það geri ég viljandi vegna þess að ekki er hægt að ræða um annað án þess að ræða um hitt, nákvæmlega eins og kom fram á Evrópuþinginu í dag. Það er hreint fráleitt að ætla að reyna að telja okkur trú um að það sé ekki þrýstingur út af ESB-umsókninni sem verður til þess að öll Samfylkingin frá upphafi þessa máls í sumar fellur og þagnar og var tilbúin að samþykkja samninginn óséðan í sumar. Og það er fyrst og síðast út af því að ESB er undir, við getum alveg treyst því, virðulegi forseti.

Ég sagði í upphafi ræðu minnar að hæstv. forsætisráðherra væri dálítið gjörn á að vera ósammála fólki sem dregur þennan samning og alla þá vinnu í efa. Það er alveg sama hvort um er að ræða lagaprófessora varðandi stjórnarskrána, framkvæmdastjóra alþjóðasamtaka um hvort Icesave-samningurinn standi lánum frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, þeirri stofnun sem viðkomandi veitir forstöðu, fyrir þrifum, eða fyrrverandi hæstv. utanríkisráðherra og formann Samfylkingarinnar, forvera hæstv. forsætisráðherra. Hún var svo aldeilis ekki sammála henni þegar ráðherra stóð hér í dag og sagðist bara ekkert skilja neitt í þessu.

Mér fundust nefnilega ummæli fyrrverandi þingmanns og fyrrverandi utanríkisráðherra, Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, mjög athyglisverð. Hún segir það sem sagt hefur verið hér að við höfum komið fram eins og við værum sek og að við höfum ekki gengið til samninganna af þeirri reisn sem við hefðum átt að gera. Þetta fannst hæstv. forsætisráðherra alrangt, henni fannst þetta alrangt og hún var ósammála.

Bíðum við. Við fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og minni hlutans í fjárlaganefnd báðum um að fá að sannreyna þessi ummæli sjálf. Við báðum um að fyrrverandi utanríkisráðherra yrði kölluð fyrir fjárlaganefnd svo hægt væri að eiga við hana orðaskipti út af þessum málum. Nú er búið að upplýsa af hverju það mátti ekki. Jú, hæstv. forsætisráðherra er ósammála fyrrverandi utanríkisráðherra og þá þurfum við ekki að ræða þetta frekar — eða hvað?

Það er nefnilega merkilegt að svo virðist vera að þeir í Samfylkingunni sem leyfi sér að hafa aðra skoðun eru núna komnir út af sakramentinu. Ummæli hæstv. utanríkisráðherra minntu mig á grein eftir fyrrverandi aðstoðarmann hennar sem hún skrifaði í Morgunblaðið í sumar þar sem hún talar mjög gagnrýnt um samningana eins og þeir lágu fyrir þá.

Annar samfylkingarmaður hefur kvatt sér hljóðs mikið að undanförnu og kominn er annar tónn í hann. Ekki vantar Evrópuáhugann hjá þeim ágæta fræðimanni, Eiríki Bergmann Einarssyni, sem segir að íslenskir stjórnmálamenn séu frekar að slá pólitískar keilur í stað þess að gæta hagsmuna Íslendinga og ég verð að taka undir með honum um það.

Hann segir í viðtali á austurland.is, þar sá ég þetta af öllum stöðum, en þar er haft eftir Eiríki Bergmann:

„„Hér virðist eins og Íslendingar hafi sjálfir sett sig í þá stöðu að vera meðhöndlaðir eins og um utanaðkomandi aðila væri að ræða. Eins og að íslenska ríkið væri einkabanki á markaði. Þannig að við létum svolítið spila með okkur út í horn í þessu máli,“ segir Eiríkur.“

Þarna vísar hann til þess sem hæstv. forsætisráðherra sagðist líka vera ósammála í dag, um að jafnræðisreglan skipti einhverju máli í þessu samhengi öllu saman. Þetta er allt saman með ólíkindum

Hæstv. forsætisráðherra þreytist ekki á að rifja upp ræðu hv. þm. Bjarna Benediktssonar fyrir tæpu ári þegar ákveðið var að fara samningaleiðina, að það hafi nú verið skoðun hans og þess vegna sé hún alveg sammála þessu. Það væri ágætt ef hún fylgdi hv. þm. Bjarna Benediktssyni í öðrum málum eins og hún virðist hanga á í þessu samhengi. Þar sagði hún að dómstólaleiðin væri ófær og hv. þm. Bjarni Benediktsson benti á að það væri í rauninni þannig að dómstólaleiðin hefði verið okkur betri af því að þar hefðum við alla vega verið dæmd til þess að greiða þetta í íslenskum krónum. En núna hefur ríkisstjórnin ákveðið að greiða þetta allt saman út í evrum og pundum og taka viðhlítandi gengisáhættu þrátt fyrir að neyðarlögin voru sett sem sérstök neyðarráðstöfun í því fordæmalausa ófremdarástandi sem var í október á síðasta ári. Þá var sett inn í lögin um tryggingarsjóðinn heimild til að greiða í íslenskum krónum, það var ekki, en það var sett. Af hverju skyldi það vera? Til þess að gæta hagsmuna íslensku þjóðarinnar. En ríkisstjórnin kýs að hunsa þetta og tekur gengisáhættuna algjörlega með opin augun þrátt fyrir að gerðar hafi verið sérstakar ráðstafanir til að tryggja að við þyrftum ekki að bera gengisáhættu. Það finnst mér algjörlega með ólíkindum.

Annað sem mér finnst vera með ólíkindum er — ég á tæpar tvær mínútur eftir af 40 mínútna ræðu og mér finnst ég vera rétt að byrja sem segir mér að hæstv. forseti má setja mig aftur á mælendaskrá vegna þess að ég er hvergi nærri búin að ljúka máli mínu.

Ég trúi því ekki að óreyndu að hv. þingmenn Vinstri grænna, sem komu með okkur í þann leiðangur í sumar að bæta þetta mál og breyta, ég trúi því ekki fyrr en ég tek á því að þeir komi ekki með okkur á þennan lokasprett. Ég trúi ekki öðru en að hv. þm. Ögmundur Jónasson sem er hér einhvers staðar … (Gripið fram í.) Hann hefur verið hérna, ég veit það vegna þess að ég ræddi við hann og hann sagði mér að hann hefði hlustað á umræðuna og ég trúi því vel. Ég trúi því ekki að hann eigi ekki eftir að koma með félaga sína úr Vinstri grænum, vegna þess að ekki er hægt að halda því fram að þetta sé nokkuð betra en það sem okkur var boðið upp á 5. júní, það má ekki halda því fram. Það er ekki rétt, hv. þingmaður, og þess vegna vona ég svo sannarlega að hv. þm. Ögmundur Jónasson og hv. þm. Ásmundur Einar Daðason, þeir þingmenn Vinstri grænna sem voru sem mikilvægastir í sumar, komi og tjái sig, leyfi okkur að eiga skoðanaskipti, það er ekki nóg að hlusta. Ég vil fá að ræða við Ögmund Jónasson um hvað hann hefur um þetta að segja.

Það er margt sem hægt er að ræða um meira. Barátta Indefence, sú ótrúlega undirskriftasöfnun sem farin er af stað. Seinast þegar ég kíkti voru yfir 3.000 Íslendingar búnir að skrifa á nokkrum klukkutímum. (Forseti hringir.) Ég trúi ekki öðru en að þar hafi fjölgað og það er eitthvað sem ég mun ræða í annarri ræðu minni í þessu máli, virðulegur forseti.