138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:56]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ragnheiði Elínu Árnadóttur kærlega fyrir mál hennar, hún er málefnaleg að venju. Hún kallaði til þingmenn Vinstri grænna, höfðaði til ábyrgðar þeirra með að hafna þessu frumvarpi.

Ég held að við ættum líka að kalla til hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Jón Bjarnason, að hann taki þátt í því með okkur að fella frumvarpið því hann var staddur á ráðstefnu í Frakklandi nú í vikunni og þar sagði hann ráðstefnugestum að hann væri sannfærður um að hagsmunum Íslendinga væri betur borgið utan Evrópusambandsins en innan þess. Hér er ráðherra í ríkisstjórninni að tala og komið hefur á daginn að Evrópusambandið er að hóta Íslendingum: Ef við göngum ekki frá Icesave-samningunum fáum við ekki aðild að Evrópusambandinu. (SER: Rangt.) Þessi skoðun Evrópusambandsins ætti að vera hvatning fyrir þingmenn Vinstri grænna til að fella (SER: Rangt.) frumvarpið vegna þess að það er á stefnuskrá þeirra að við göngum ekki inn í Evrópusambandið. Ég minni á að nýkjörinn formaður Heimssýnar berst gegn aðild, og hann er þingmaður Vinstri grænna. Ég trúi að við fáum fullan styrk frá þingmönnum Vinstri grænna við lokaafgreiðslu málsins.

Í framhaldi af þessu langar mig til að spyrja hv. þingmann. Svo virðist vera miðað við málflutning og eftirfylgni ríkisstjórnarinnar í þessu máli með Icesave-frumvarpið að koma eigi því í gegnum þingið með illu eða góðu. Telur hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir að hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra viti eitthvað meira en þingheimur? Heldur þingmaðurinn að búið sé að gera einhvern baksamning, eitthvert samkomulag sem þingið er ekki upplýst um? Hvað heldur þingmaðurinn um þetta (Forseti hringir.) miðað við það hvað ráðherrarnir flytja mál sitt af mikilli elju?