138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[19:00]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála hv. þingmanni um að þessir ágætu ráðherrar okkar vita eitthvað meira en þingheimur veit og þá erum við enn komin að því að hér er verið að leyna þingmenn upplýsingum. Hér er verið að fara fram á að þingið veiti mjög háa ríkisábyrgð, ríkisábyrgð sem er svo há að annað eins hefur ekki sést og það er enn verið að leyna okkur upplýsingum. Þetta er svo alvarlegt hvernig komið er fram við íslenska þingið að ég er nánast algjörlega orðlaus.

Það varð mikið uppnám í þinginu í dag þegar þessar fréttir fóru að berast í gegnum Bloomberg-fréttaveituna að Evrópusambandsþingið væri með hótanir gagnvart okkur Íslendingum. Því langar mig til að grípa aftur niður í ræðu eða fréttir af umræddum fundi sem hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sat í Frakklandi. Hann sagði, með leyfi forseta, sem sýnir hve bjölluatið í Brussel er mikið, því að eins og hv. þingmaður sagði áðan í ræðu sinni að þegar hún talaði við þingmenn á fundi erlendis, heldur öll Evrópa að Ísland vilji endilega fara þarna inn en svo er bara ekki, en hæstv. ráðherra sagði, með leyfi forseta, í Frakklandi:

„Grundvöllur afkomu okkar byggist á auðlindum okkar. Við verðum að hafa yfirráð yfir verðmætustu eignum okkar, því að efnahagur okkar“ — efnahagur okkar, takið eftir — „menning og framtíð byggjast á því. Við getum átt víðtækari alþjóðlega samvinnu án þess að tengjast skipulagi Evrópusambandsins.“

Þarna er þetta alveg skýrt, þarna talar eitt höfuð ríkisstjórnarinnar. Það er tvíhöfða þurs sem við erum að kljást við í þinginu, þessi ríkisstjórn. Þetta er mjög alvarlegt mál. Hér kemur svo forsætisráðherra í dag með hótanir, hræðsluáróður og hótanir um að hér verði mikill frostavetur ef við göngum ekki að þessu frumvarpi og samþykkjum það sem lög. (Forseti hringir.) Hvað finnst hv. þingmanni um þessar sífelldu hótanir?