138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[19:05]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu. Við þingmenn erum búnir í ræðum okkar hér að draga upp hvert álitamálið á fætur öðru sem enn á eftir að svara. Einnig hafa komið fram ný álitamál og nægir þar að nefna varðandi stjórnarskrá lýðveldisins, hvort við þingmenn séum hugsanlega að brjóta stjórnarskrána. Ég vil nota tækifærið í þessu andsvari og biðja frú forseta um að beita sér fyrir því að gengið verði í það að fá botn í það nú þegar hvort við séum hugsanlega á þeirri leið eins og Sigurður Líndal velti upp að við gætum verið að gera, að brjóta stjórnarskrá lýðveldisins. Við höfum skrifað undir eiðstaf um að gera það ekki og því ber að skoða það.

Mig langar að spyrja hv. þingmann aðeins út í þennan samning sem ríkisstjórnin og meiri hlutinn virðist vilja fara með í gegnum þingið í mikilli ósátt við þing og þjóð. Það er ljóst samkvæmt þeim drögum eða frumvarpi sem liggur fyrir að við munum borga allt sem á okkur fellur í þessu í topp, þó að það taki 30 ár eða hvað það er, við munum alltaf borga þetta í topp.

Ég hef reynt að draga fram og reynt að átta mig á og fá svör við því hvaða munur er á því og að láta dæma sig til að borga þetta í topp. Ég sé ekki annað en að við séum að gefa eftir stolt okkar með því að semja og láta knýja okkur á hnén til að ganga frá þessum samningum. Ljóst er að á bak við það stendur Evrópusambandið sem er að kúga okkur til þess arna. Það er mikilvægt að við fáum hér fram hugmyndir þingmanna um það (Forseti hringir.) hver sé munurinn á því að borga og að láta dæma sig til þess.