138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[19:07]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir þetta andsvar. Ég deili algjörlega áhyggjum hans af stjórnarskránni. Það var merkilegt að í ræðu hæstv. forsætisráðherra í dag lýsti hún sig einmitt ósammála því líka, það var nefnilega verið að gagnrýna eitthvað og hún lýsti sig náttúrlega ósammála því.

Það sem við gerðum í sumar var að breyta því, það væri betra að samþykkja þetta með fyrirvörunum en að taka áhættuna af því að láta dæma sig. Það sem tókst að gera í sumar var að taka óendanlega upphæð og óendanlegan tíma og setja það í þann búning að við vissum hversu lengi og hversu mikið við mundum borga. Nú er búið að taka þá stöðu að skjóta fyrirvarana í tætlur, eins og Stefán Már Stefánsson háskólaprófessor orðaði það — nei, fyrirgefið, það var Ragnar Hall sem orðaði það svo um þann fyrirvara sem kenndur er við hann. Hver er munurinn á því og að láta dæma sig? Jú, eins og sagt var hér í ágætu andsvari formanns Sjálfstæðisflokksins áðan, munurinn er sá að við yrðum dæmd til þess að borga í íslenskum krónum en ríkisstjórnin hefur ákveðið að taka gengisáhættuna og borga í erlendri mynt, þrátt fyrir að ákvæðið um að tryggingarsjóðnum sé heimilt að borga í íslenskum krónum hafi komið inn í neyðarlögunum. Þetta var ekki, þetta var sett inn í neyðarlögin. Af hverju? Vegna þess að það var neyðarástand, menn sáu þetta fyrir. Menn sáu það fyrir að við gætum hugsanlega verið dæmd. Þess vegna var alla vega höfð sú fyrirhyggja að setja þetta inn í neyðarlögin. En ríkisstjórnin ákveður að vera ósammála þeim eins og svo mörgu öðru í þessu máli.