138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

skattamál, viðvera ráðherra og framhald kvöldfundar.

[20:02]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir þær óskir sem hér hafa komið fram um að hæstv. ráðherrar verði viðstaddir þessa umræðu, forsætisráðherra og fjármálaráðherra sérstaklega, ásamt varaformanni fjárlaganefndar — sem er nú kominn hér — og ekki væri verra að sjá fjárlaganefndarformanninn sjálfan sem mun bera uppi þessa umræðu væntanlega.

Ég vil þó nota tækifærið, frú forseti, að koma því á framfæri að nú hefur stjórnarandstaðan boðið stjórnarmeirihlutanum að hér verði mál tekin á dagskrá og þetta mál geymt á meðan þau eru rædd til að koma málum áfram. Mér þykir mjög merkilegt ef það er ákvörðun stjórnarmeirihlutans að halda áfram umræðu um þetta mál og það er þá að sama skapi ákvörðun hans að geyma þau mál sem hann telur einnig mikilvægt að hér verði rædd. Ég vil bara að því sé haldið til haga, frú forseti, að það er ákvörðun meiri hlutans að halda áfram með þetta mál en taka ekki önnur mál á dagskrá (Forseti hringir.) sem þarf að ræða í ljósi fjárlagagerðar og annars.