138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

skattamál, viðvera ráðherra og framhald kvöldfundar.

[20:16]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Frú forseti. Ég tek undir með hv. þm. Bjarna Benediktssyni. Það er náttúrlega algjörlega ótækt að við séum að hlusta á þetta af hálfu stjórnarliða. Umræðan sem hefur farið fram í þrjá daga, reyndar ekki heila þrjá daga, heldur hluta úr þremur dögum, um þetta stóra, mikilvæga og merkilega mál sem við erum að ræða út í hörgul er næstum því ekki byrjuð. Ég var að ljúka við fyrstu ræðu mína, 40 mínútna ræðu. Ég get alveg lofað þingheimi því, eða hótað eftir því hvernig menn líta á það, að ég hef ekki sagt mitt síðasta orð í málinu og það er margt sem ég á eftir að segja og það fellur svo sannarlega ekki undir málþóf það sem ég hafði að segja. Ég vil gera athugasemd við að það er ekki nóg að hæstv. utanríkisráðherra sem situr hér núna, sitji einhvers staðar annars staðar og hlusti vegna þess að ég var með fullt af spurningum sem ég beindi til hæstv. utanríkisráðherra, upplýsingum (Forseti hringir.) sem ég kallaði eftir og ég óska eftir að hann svari. Það er ekki hægt að vera með fundi langt fram á nætur þegar spurningum manns er ekki einu sinni svarað. (Utanrrh.: Utanríkisráðherra er annálaður nátthrafn.)

(Forseti (ÁRJ): Forseti biður um hljóð í salnum.)